Innlent

Lífeyrissjóðirnir eiga að tryggja aðgengilegar og samanburðarhæfar upplýsingar

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Lífeyrissjóðakerfið má ekki vera svo flókið að ekki sé hægt að átta sig á hver staðan sé segir formaður félags eldri borgara í Reykjavík. Fólk eigi að geta borið saman ávöxtun þeirra og nálgast upplýsingar um þá hratt og örugglega.

Þrátt fyrir að lífeyrissjóðakerfið sé frá 1974 hefur ekki verið hægt að bera saman langtímaávöxtunartölur sameignarsjóða fyrr en í vor. Þá kom fram að allt að sexfaldur munur var á ávöxtun lífeyrissjóða á 20 ára tímabili sem gæti þýtt allt að hundrað og fimmtíu prósenta mun á ellilífeyrisgreiðslum. Enn eiga hins vegar eftir að birtast upplýsingar um nöfn sjóðanna.

Ellert B. Schram formaður félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni segir mikilvægt að þessar upplýsingar komi fram sem fyrst.

„Það þarf að vera upplýst hver staðan er hverju sinni, þannig að fólk geti borið þetta saman. Þetta kerfi er ekki fyrir sjóðina heldur fólkið sem borgar í sjóðina,“ segir Ellert.

Þórey S. Þórðardóttir framkvæmdastjóri Landssambands lífeyrissjóða sagði fyrir helgi að til stæði að birta þessar upplýsingar á vef sambandsins á næstu mánuðum. Aðspurð hverju sætti að þær væru ekki löngu fram komnar sagði hún.

„Góð spurning. Gögnin eru flókin og uppgjörsaðferðir sjóðanna eru misjafnar,“ sagði Þórey.  

Ellert Schram segir mikilvægt að upplýsingarnar séu aðgengilegar og gagnsæjar.

„Ég held að það sé öllum ljóst að lífeyrissjóðskerfið á rétt á sér en við megum ekki hafa það svo flókið að engin átti sig á hver staðan er,“ sagði Ellert.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×