Fótbolti

Sumarmessan: Aron segir það „mikinn skell“ að Bandaríkin misstu af HM

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Aron Jóhannsson í leik með bandaríska landsliðinu.
Aron Jóhannsson í leik með bandaríska landsliðinu. Vísir/getty
Aron Jóhannsson var gestur í Sumarmessunni á Stöð 2 Sport í gærkvöld en hann var fyrsti Íslendingurinn sem spilaði á HM í fótbolta. Aron og bandaríska landsliðið komust þó ekki til Rússlands.

„Bandaríkin eru búin að vera á öllum þessum mótum síðan 80-og-eitthvað svo vissulega var þetta mikill skellur,“ sagði Aron. Hann á að baki 19 landsleiki fyrir Bandaríkin og fjögur mörk.

2014 var HM í Brasilíu og rifjaði Aron upp gamla tíma. Hann sagði strákana í bandaríska landsliðinu hafa stytt sér stundir á svipaðan máta og þeir íslensku gera nú í Rússlandi, borðtennis og tölvuleikir á meðal helstu afþreyingarefna.

„Það er mikilvægt að reyna að finna sér eitthvað að gera þarna á milli.“

„Þegar maður er búinn að vera saman þarna í aðeins meira en mánuð, þetta tekur á. Í lokinn þá er manni hætt að finnast allir brandararnir hjá vinum sínum fyndnir.“

Innslagið úr Sumarmessunni má sjá í sjónvarpsglugganum með fréttinni. Sumarmessan er á dagskrá á Stöð 2 Sport klukkan 21:00 að kvöldi hvers leikdags á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×