Erlent

Trump mun eiga fund með Elísabetu drottningu

Atli Ísleifsson skrifar
Elísabet II Bretlandsdrottning.
Elísabet II Bretlandsdrottning. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti mun eiga fund með Elísabetu II Bretlandsdrottningu þegar hann sækir Bretland heim í næstu viku. Þetta staðfesti sendiherra Bandaríkjanna í Bretlandi í samtali við Sky News fyrr í kvöld.

Áætlað er að Trump komi til Bretlands föstudaginn 13. júlí, en þetta er fyrsta heimsókn hans til landsins frá því að hann var kjörinn forseti árið 2016. Ekki er um opinbera heimsókn að ræða og hefðu þau Trump og Elísabet því ekki endilega þurft að hittast líkt og tíðkast í slíkum viðhafnarheimsóknum.

Sendiherrann Robert Wood Johnson segir að þó að endanleg dagskrá forsetans liggi ekki fyrir þá sé ljóst að hann muni eiga fund með þjóðarleiðtoganum breska.

Búist er við að Trump og drottningin muni funda í Windsorkastala. Þá er einnig búist við að hann muni eiga fund með Theresu May forsætisráðherra í heimsókn sinni til Bretlands.

Reiknað hafði verið með að Trump myndi heimsækja London í febrúar síðastliðinn, þegar nýtt sendiráð Bandaríkjanna í Bretlandi var formlega opnað. Trump aflýsti þó þeirri heimsókn þar sem hann gagnrýndi val stjórnar fyrirrennara síns í embætti, Barack Obama, á staðsetningu hins nýja sendiráðs. Tæplega tvær milljónir Breta höfðu þá skrifað undir lista á netinu þar sem lagst var gegn fyrirhugaðri heimsókn Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×