Skoðun

Nám sem opnar dyr

Guðrún Hafsteinsdóttir skrifar
Þau ánægjulegu tíðindi bárust í vikunni að aðsókn í verk- og starfsnám jókst um þriðjung. Í haust munu 16% þeirra sem luku grunnskólanámi nú í vor hefja verk- og starfsnám í stað 12% árið áður. Það verða því 653 nemendur sem sækja sér nám á þessum sviðum næsta skólaár. Þetta er ánægjulegt vegna þess að slíkt nám opnar margar dyr fyrir þá einstaklinga sem það sækja auk þess sem það verður verðmætt fyrir samfélagið að nýta krafta þessa unga fólks á næstu áratugum enda er eftirspurnin mikil. Samtök iðnaðarins hafa sett það markmið að fjölga fagmenntuðu fólki þannig að 20% grunnskólanema velji starfsmenntun árið 2025 og 30% árið 2030.

Samtök iðnaðarins taka virkan þátt í því að auka skilning, áhuga og virðingu nemenda og foreldra á starfsnámi. Þannig er unnið markvisst að því að fjölga þeim sem velja starfsmenntun að loknum grunnskóla og þeim möguleikum sem námið býður upp á. Lögð er áhersla á virkt samstarf atvinnulífs og skóla þar sem nemendur fá tækifæri til að kynnast fjölbreyttum störfum.

Samhent átak þarf

Þau fjölmörgu störf sem bíða nemendanna að námi loknu henta konum ekki síður en körlum. Samtök iðnaðarins hafa ásamt fleirum hvatt konur til að sækja sér verk- og starfsmenntun. Það hefur oftar en ekki jákvæð áhrif á vinnustaði að þar starfi fólk af báðum kynjum.

Menntakerfið gegnir því mikilvæga hlutverki að undirbúa komandi kynslóðir undir störf í samfélagi framtíðarinnar. Það er enn nokkuð í land að ná því að 20% nemenda velji sér starfsmenntun og betur má ef duga skal. Það þarf samhent átak stjórnvalda og atvinnulífs til að hvetja nemendur enn frekar til að líta til verk- og starfsnáms. Samtök iðnaðarins fagna þessum 653 nemum og hlökkum við til að vinna með þeim að krefjandi lausnum til uppbyggingar á íslensku atvinnulífi og verðmætasköpunar í samfélaginu. Framtíðin er þeirra.

Höfundur er formaður Samtaka iðnaðarins




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×