Innlent

Eitt stærsta nýsköpunarverkefni á húsnæðismarkaði

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Til stendur að byggja á átta framkvæmdareitum í borginni. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Til stendur að byggja á átta framkvæmdareitum í borginni. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki beint. Vísir/Eyþór
Yfir fimmhundruð íbúðir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur verða byggðar á átta framkvæmdareitum í borginni á næstu misserum. Reykjavíkurborg leitar eftir samstarfsaðilum um uppbygginguna sem er eitt stærsta nýsköpunarverkefni sem borgin hefur ráðist í. En umsóknarfrestur til er til 18. júlí. 

Um er að ræða verkefni sem hófst í vetur sem snýst um að auka framboð af hagkvæmu húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Auglýst var eftir hugmyndum að uppbyggingunni og voru sendar inn 68 tillögur.

Nú er komið að öðrum fasa verkefnisins og hefur Reykjavíkurborg auglýst eftir samstarfsaðilum um uppbyggingu á þróunarreitum í Úlfarsárdal, á Kjalarnesi, í Gufunesi, í Bryggjuhverfi við Elliðaárvog við Stýrimannaskólann, á Veðurstofureit og í Skerjafirði. Deiliskipulag þessara svæða er mislangt á veg komið.

Óli Örn Eiríksson, deildarstjóri atvinnuþróunar hjá Skrifstofu eigna og atvinnuþróunar segir að þetta sé með stærri nýsköpunarverkefnum sem farið hafi verið í í langan tíma.

„Lóðirnar eru bara í boði fyrir þá sem ætla að taka áhættu og gera hlutina öðruvísi. Þá er fast verð á lóðunum þannig að þær eru ódýrari en hefbundnar lóðir,“ segir Óli Örn.

Hann segist hafa orðið var við mikinn áhuga á verkefninu og býst við að uppbygging hefjist á næstu sex til tólf mánuðum á reitunum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×