Körfubolti

Jón Arnór missir af leikjunum en hefur ekki spilað sinn síðasta landsleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefansson.
Jón Arnór Stefansson. Vísir/Bára
Jón Arnór Stefánsson verður ekki með íslenska körfuboltalandsliðinu í komandi leikjum á móti Búlgaríu og Finnlandi í undankeppni HM 2019. Þetta kom fram á opinni æfingu íslenska liðsins í dag.

Jón Arnór er meiddur og varð af þeim sökum að draga sig út úr íslenska hópnum að þessu sinni.

Jón Arnór hafði gefið það út að leikirnir á móti Búlgaríu og Finnlandi yrðu hans síðustu á ferlinum en hann hefur þó ekki endilega spilað sinn síðasta landsleik.

Takist íslensku strákunum að tryggja sér sæti í milliriðli undankeppni HM þá stefnir Jón Arnór á því að spila með landsliðinu í haust.

Pavel Ermolinskij, liðsfélagi Jóns Arnórs úr Íslandsmeistaraliði KR, verður heldur ekki með í þessum leikjum vegna meiðsla.

Þetta eru síðustu leikir liðsins í fyrri umferðinni og eftir þá ræðst hvar liðið stendur og hvert framhaldið verður.

Ísland leikur í F-riðli og staðan í honum Tékkland (3/1), Ísland (2/2), Finnland (2/2) og Búlgaría (1/3) fyrir lokaleikina sem framundan eru. Þrjú efstu liðin fara áfram í aðra umferð en þá blandast E og F riðlar saman í einn sex liða riðil.

Fari leikar svo að Búlgaría vinni leikinn á móti Íslandi munu þeir alltaf enda fyrir ofan Ísland í riðlinum nema að íslensku strákarnir leggi Finna í Hartwall-Arena þann 2. júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×