Innlent

Segir lyfið ekki töfralausn fyrir alla astmasjúklinga

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Sérfræðilæknir segir vonir bundnar við að líftæknilyf geti nýst í auknum mæli í baráttunni við astma. Ekki sé þó um neinar töfralausnir að ræða, en þau líftæknilyf sem nú séu í boði nýtist aðeins litlum hluta astmasjúklinga.

Í kvöldfréttum í gær var rætt við Gyðu Jónsdóttur, sem glímt hefur við alvarlegan astma um árabil. Svo slæm voru einkennin um tíma að hún gat vart hreyft sig á morgnana án þess að fá stórt astmakast. Eftir að hún leitaði læknis og byrjaði í svonefndri Nukala lyfjameðferð breyttust lífsgæði hennar hins vegar til muna.

Frétt Stöðvar 2: Náði bata um leið og hún tók nýtt lyf við astma

„Það má segja það að ég hef ekki hóstað síðan 15. febrúar vegna astma,“ sagði Gyða í kvöldfréttum í gær.

Lyfið er svokallað líftæknilyf, en sérfræðilæknirinn Unnur Steina Björnsdóttir annaðist meðferð Gyðu. Hún segir spennandi tíma framundan í notkun slíkra lyfja.

Mikið notað í krabbameinslækningum

„Í ofnæmi og exemi er að koma nýtt lyf, þetta er mikið notað í krabbameinsmeðferð, þeir eru örugglega fremstir í notkun þessara  líftæknilyfja. Gigtarlæknar hafa notað þessi lyf mjög lengi,“ segir Unnur Steina.

Þannig hafi tekist að bæta lífsgæði fólks með hina ýmsu sjúkdóma á undraverðan hátt með notkun líftæknilyfja.

„Hjá okkur er það þannig að öndunarprófin lagast, einkenni hverfa, fólk kemst aftur til vinnu. Fólk sem hefur ekki getað stundað nám og jafnvel ekki getað sofið vegna astma fær eiginlega alveg nýtt líf,“ segir Unnur Steina.

Astmi frekar eins og heilkenni

Unnur Steina bendir hins vegar á að ekki sé um neina töfralausn að ræða sem hægt sé að beita á alla asmasjúklinga.

„Astmi er algengur sjúkdómur, það eru milli fimm og tíu prósent allra sem eru með astma. Astmi er hins vegar meira eins og heilkenni, frekar en einn sjúkdómur því það eru mismunandi frumur eða mismunandi orsakir sem orsaka astma hjá hverjum og einum.“

Þannig sé lyfið sem breytti lífi Gyðu eingöngu notað sem viðbótarmeðferð og virki aðeins á um fimm prósent astmasjúklinga. Á flesta séu þekktari og víðtækari meðferðir því vænlegastar til vinnings, enn sem komið er.

„Lyfið var fyrst prófað fyrir tíu eða fimmtán árum síðan og var þá prófað á alla astmasjúklinga og gerði akkúrat ekki neitt. Það voru mikil vonbrigði. Síðan kom í ljós að ef sjúklingar voru valdir sem voru með hækkun á eosinofílum þá kom fram svörun eins og við sáum hjá þessari konu í gær,“ segir Unnur Steina að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×