Viðskipti innlent

Bautinn seldur

Sveinn Arnarsson skrifar
Guðmundur Karl og Helga hafa selt Bautann eftir 20 ára rekstur.
Guðmundur Karl og Helga hafa selt Bautann eftir 20 ára rekstur. Ja.is
Hjónin Guðmundur Karl Tryggvason og Helga Árnadóttir hafa selt veitingahúsið Bautann á Akureyri. Helga og Guðmundur hafa sterk tengsl við staðinn en þau kynntust þar á námsárum sínum og störfuðu lengi á staðnum áður en þau keyptu þetta helsta kennileiti í miðbæ Akureyrar. Kaupandi er veitingamaðurinn Einar Geirsson, eigandi Rub 23 á Akureyri.

„Þessi staður hefur auðvitað verið hluti af manni lengi og ég er stoltur af því að þessi staður er frægur á landsvísu fyrir að vera bæði með besta matinn og bestu þjónustuna. Það er ekki sjálfsagt að halda því úti áratugum saman,“ segir Guðmundur Karl. „Það eru nú að verða um 20 ár síðan við keyptum okkur fyrst inn í staðinn. Reksturinn er gríðarlega öruggur og hefur verið farsæll síðustu ár.“

Guðmundur segir þetta auðvitað vera nokkur tímamót fyrir sig og fjölskylduna en segir sumarið fara í að ganga frá fjölmörgu sem þarf að gera við sölu á stað sem þessum. „Það er mikil vinna sem liggur á bak við þessi umskipti og mörgum hlutum þarf að ganga frá. Framtíðin ber síðan eitthvað með sér en ég hef aldrei verið verkefnalaus og hef ekki hug á að það breytist,“ bætir Guðmundur Karl við.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×