Svíar rúlluðu upp Mexíkó en bæði liðin fara í sextán liða úrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Svíar fagna í dag.
Svíar fagna í dag. Vísir/Getty
Svíar tryggðu sér sæti í sextán liða úrslitum HM í fótbolta í Rússlandi með stórkostlegri frammistöðu og 3-0 sigri á Mexíkó í leik sem þeir urðu að vinna.

Mexíkóar fögnuðu samt í leikslok þrátt fyrir stórtap því þeir fengu stoðsendingu frá Kóreumönnum sem unnu heimsmeistara Þjóðverja á sama tíma.

Sænska landsliðið varð fyrir miklu áfalli í lok leiksins á móti Þýskalandi þegar Þjóðverjar skoruðu sigurmark með síðustu spyrnu leiksins. Svíarnir þjöppuðu sér hinsvegar saman og buðu upp á fimm stjörnu frammistöðu í dag.

Svíar sköpuðu fjölda færa í fyrri hálfleiknum en mörkin þeirra komu ekki fyrr en í þeim síðari. Svíar settu þrjú mörk í seinni hálfleik og komust því ekki bara í sextán liða úrslitin heldur unnu þeir riðilinn.

Það var ljóst strax frá byrjun að Svíar voru mættir til í þennan leik til að sækja sigurinn og þeir fengu hvert færið á fætur öðru í upphafi leiks.







Marcus Berg og þá sérstaklega Emil Forsberg fengu færi eins og oft áður í keppninni en náðu hvorugir að nýta það. Svíar áttu líka að fá víti þegar Javier Hernández lagði boltann fyrir sig með hendi í vítateig sínum. Dómarinn skoðaði atvikið en dæmdi samt ekki víti.

Þetta hefði verið mjög umdeilt atvik hefði mörkin ekki dottið inn hjá Svíum í seinni hálfleik en þau gerðu það hinsvegar.

Fyrsta markið kom úr óvæntri átt en Ludwig Augustinsson skoraði þá sitt fyrsta mark fyrir sænska landsliðið.

Viktor Claesson mishitti boltann þannig að úr varð góð stoðsending á Augustinsson sem nýtti sér það.

Marcus Berg fiskaði síðan vítaspyrnu sem fyrirliðinn Andreas Granqvist nýtti af miklu öryggi og kom Svíum í 2-0.

Þriðja mark Svía var síðan klaufalegt sjálfsmark hjá Edson Álvarez.

Mexíkóar þurftu að bíða eftir úrslitunum úr hinum leiknum en Suður-Kóreumenn skoruðu þá tvö mörk í lokin og sendu heimsmeistara Þjóðverjar heim af HM.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira