Sviss áfram eftir dramatískt jafntefli

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Svisslendingar fagna fyrsta marki sínu
Svisslendingar fagna fyrsta marki sínu Vísir/Getty
Sviss komst áfram í 16-liða úrslit HM í Rússlandi þrátt fyrir jafntefli gegn Kosta Ríka í lokaumferð riðlakeppninnar. Svisslendingar mæta Svíum í 16-liða úrslitunum.

Fyrir leikinn var staða Sviss nokkuð góð, svo lengi sem Brasilía tapaði ekki fyrir Serbíu kæmust þeir áfram. Kosta Ríka hafði ekki skorað mark í keppninni og var úr leik svo fyrir fram mátti búast við þokkalega auðveldum sigri Sviss.

Leikurinn byrjaði þó ekki eftir uppskriftinni. Kosta Ríka byrjaði leikinn af krafti og áttu þeir tvær tilraunir í trékverkið á fyrstu 10 mínútunum. Það var hins vegar Sviss sem komst yfir. Blerim Dzemaili þrumaði boltanum í netið af stuttu færi á 31. mínútu.

Sviss var einu marki yfir í hálfleik en Kosta Ríka jafnaði metin snemma í seinni hálfleik. Kendall Waston skoraði markið upp úr hornspyrnu þar sem hann stökk hæst allra í teignum. Markið þýddi þó lítið fyrir Sviss þar sem Brasilía var með forystu í sínum leik og Svisslendingar nokkuð öruggir áfram.

Josip Drmic kom Sviss yfir á nýjan leik undir lokin og virtist hafa gulltryggt Sviss sætið í 16-liða úrslitunum. Stuttu síðar benti dómari leiksins á vítapunktinn fyrir brot á Bryan Ruiz. Hann fékk hins vegar boð um það frá myndbandsdómurunum að Ruiz væri rangstæður og var dómurinn dreginn til baka.

Kosta Ríka fékk þó vítið sitt aðeins örfáum augnablikum síðar þegar Joel Campbell var felldur innan teigs. Ruiz fór á punktinn og hamraði boltann í þverslánna. Boltinn fór hins vegar af slánni og í bakið á Yan Sommer í marki Sviss og þaðan í netið.

Kosta Ríka náði í sín fyrstu stig en er þrátt fyrir það úr leik og Sviss mætir Svíþjóð í 16-liða úrslitum. Leikurinn reyndist Svisslendingum hins vegar mjög dýrkeyptur því tveir lykilmenn þeirra, fyrirliðinn Sebastian Lichtsteiner og Fabian Schar fengu sín önnur gulu spjöld í mótinu og verða því í leikbanni í leiknum gegn Svíum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira