Körfubolti

Martin sagður á leið til silfurliðs Þýskalands

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Martin er einn besti íslenski körfuboltamaðurinn um þessar mundir
Martin er einn besti íslenski körfuboltamaðurinn um þessar mundir vísir/getty
Martin Hermannsson mun spila í þýsku úrvalsdeildinni í körfubolta á næsta tímabili samkvæmt heimildum körfuboltavefsíðunnar Sportando.

Martin átti frábært tímabil með franska liðinu Chalon-Reims síðasta vetur og var einn besti maður liðsins. Í vor kom fram að Chalon-Reims ætlaði að bjóða Martin einn stærsta samning í sögu félagsins en hann hefur einnig vakið athygli stærri liða.

Heimildir Sportando segja Martin hafa sagt nei við tyrkneska liðið Darussafaka og ætli þess í stað að ganga til liðs við Alba Berlin.

Martin var í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld þar sem hann sagðist vera „kominn niður í svona fjögur lið sem standa til boða, tvö sem eru aðeins heitari en hin tvö.“

Darussafaka er stórlið í Evrópuboltanum og spilar í Euroleague á næsta tímabili. Alba Berlin leikur í EuroCup en komst í úrslitaeinvígi þýsku deildarinnar á nýliðnu tímabili.

Martin er um þessar stundir í Búlgaríu með íslenska landsliðinu en liðið spilar mikilvægan leik við heimamenn á föstudag. 


Tengdar fréttir

Martin boðinn stór samningur í sumar │ „Draumurinn að spila í NBA“

Martin Hermannsson hefur farið á kostum í frönsku úrvalsdeildinni í körfubolta og átt hvern stórleikinn á fætur öðrum í liði Chalons-Reims. Landsliðsmaðurinn var í ítarlegu viðtali við franska miðilinn BeBasket þar sem hann ræddi tímabilið, framtíðina og íslenska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×