Erlent

Pence „eitruð naðra“ i augum Maduro

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Varaforseti Bandaríkjanna sakar Nicolás Maduro um harðstjórn í Venesúela.
Varaforseti Bandaríkjanna sakar Nicolás Maduro um harðstjórn í Venesúela. Vísir/epa
Forseti Venesúela lýsir varaforseta Bandaríkjanna sem „eitraðri nöðru“ eftir fund þess síðarnefnda með venesúelskum flóttamönnum, sem leitað hafa á náðir brasilískra stjórnvalda.

Nicolás Maduro segir að Mike Pence, sem hefur sakaði forsetann um að stjórna ríki sínu með harðri hendi, tali bara í þreyttum frösum og að ekkert nýtt kæmi fram í máli hans þegar hann opnaði munninn.

Maduro beinir jafnframt spjótum sínum að Evrópusambandinu, sem hann sakar um undirlægjuhátt við Bandaríkin, eftir að sambandið ákvað að herða refsiaðgerðir gegn stjórnvöldum í Caracas.

Sjá einnig: Sjálf­skapar­víti Venesúela: Sósíalíska drauma­ríkið sem koll­varpaðist í mar­tröð

Tugþúsundir hafa flúið Venesúela á síðustu árum, ekki síst vegna gríðarlega bágs efnahagasástands. Talið er að um 32 þúsund Venesúelabúar hafi flúið til Brasilíu í leit að betra lífi. 

Mike Pence heimsótti venesúelska flóttamenn í brasilísku borginni Manaus. Heimsóknin fór öfugt ofan í Maduro.Vísir/EPA
Efnahagsástandið hefur leitt til vargaldar í Venesúela. Hundruð óbreyttra borgara hafa fallið í átökum, bæði innbyrðis sem og við lögreglusveitir forsetans. Talið er að þorri þjóðarinnar búi við næringarskort enda standa hillur stórmarkaða tómar eftir óðaverðbólgu síðustu mánaða.

Evrópusambandið ákvað í síðustu viku að leggja viðskiptaþvinganir á 11 háttsetta stjórnmálamenn í landinu. Ákvörðunin var tekin í kjölfar kosninga í Veneúsela, sem sambandið segir að hafi hvorki verið frjálsar né sanngjarnar. Stjórnarandstaða landsins ákvað að sniðganga kosningarnar af sömu sökum. Meðal þeirra sem urðu fyrir barðinu á viðskiptaþvingununum er nýkjörinn varaforseti Venesúela, Delcy Rodríguez.

Maduro hlaut góða kosningu og er kjörtímabil hans til sex ára. Hann hefur sakað Bandaríkin um að há „efnaghagsstríð“ þjóð sinni með það fyrir augum að koma sér frá völdum. Þar að auki girnist Bandaríkjamenn olíuauð Venesúela.


Tengdar fréttir

Kellogg flýr frá Venesúela

Bandaríski morgunkornsframleiðandinn Kellogg hefur ákveðið að stöðva framleiðslu sína í Venesúela sökum bágs efnahagsástands landsins.

Bannar stjórnarandstöðunni að bjóða fram

Forseti Venesúela, Nicolas Maduro, segir að helstu stjórnarandstöðuflokkar landsins fái ekki að taka þátt í forsetakosningunum sem fram fara á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×