Erlent

Pútín tilbúinn í fund með Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladímír Pútín, forseti Rússlands.
Vladímír Pútín, forseti Rússlands. Vísir/AP
Vladímír Pútín, forseti Rússlands, segist tilbúinn til að hitta Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, um leið og Bandaríkjamenn „væru tilbúnir“, eins og hann orðaði það. Pútín sagði koma til greina að halda fund þeirra í Vínarborg í Austurríki.

„Um leið og þeir í Bandaríkjunum eru tilbúnir getur þessi fundur átt sér stað, eftir því hvernig dagskráin mín mun líta út auðvitað,“ sagði Pútín við blaðamenn í Kína í dag. „Bandaríski forsetinn hefur ítrekað sagt að slíkur fundur yrði hjálpsamur. Ég get staðfest það. Það er satt.“



Fregnir hafa borist af því að Pútín hafi beðið Sebastian Kurz, kanslara Austurríkis, um hjálp við að skipuleggja fund hans og Trump og að ríkisstjórn Bandaríkjanna væri að íhuga fundarhöld með Pútín.

Trump hefur á undanförnum dögum kallað eftir því að Rússlandi verði aftur hleypt inn meðal G7 ríkjanna svokölluðu, svo þau yrðu aftur G8. Rússum var vísað úr hópnum eftir innlimun þeirra á Krímskaga frá Úkraínu árið 2014.

G7 ríkin eru Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Ítalía, Japan, Kanada og Þýskaland.

Þegar Trump var spurður að því í gær hvort hann væri tilbúinn til að viðurkenna eignarrétt Rússa á Krímskaga, skammaðist hann út í Barack Obama, forvera sinn, og sagði hann hafa leyft Rússum að taka svæðið. Þá sagði hann Rússa hafa eytt miklum peningum í Krímskaga og svaraði í raun ekki spurningunni.

Hann ítrekaði þó að réttast væri að hleypa Rússum aftur inn í hópinn. Því eru hinir þjóðarleiðtogarnir sex hins vegar ósammála.

 


Tengdar fréttir

Trump vill Rússa aftur inn í G7

Hópurinn var á árum áður kallaður G8 en Rússum var vísað úr honum eftir innlimun þeirra á Krímskaga frá Úkraínu árið 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×