Innlent

Snjókoma í kortunum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ísfirðingar mega gera ráð fyrir snjókomu á fimmtudag.
Ísfirðingar mega gera ráð fyrir snjókomu á fimmtudag. Vísir/samúel

Landsmenn mega gera ráð fyrir heldur hráslagalegu veðri í vikunni ef marka má spákort Veðurstofunnar. Ekki aðeins er búist við einhverri vætu á hverjum einasta degi heldur gætu íbúar og gestir Vestfjarða átt von á snjókomu á fimmtudag- gangi spáin eftir.

Það verður þó hægur vindur í dag, norðaustan 3 til 8 m/s og hitinn verður á bilinu 7 til 16 stig, hlýjast á Suðausturlandi. Þessu mun þó fylgja súld eða dálítil rigning norðantil, þó er aðeins gert ráð fyrir stöku skúrum og vestlægari átt sunnan heiða.

Svipað veður er svo í kortunum fyrir þriðjudag og miðvikudag. Búast má við einhverri úrkomu í flestum landshlutum, án þess þó að það hellirigni, og verður hitinn nálægt 10 stigum.

Það snýst svo í norðanátt á fimmtudag, áfram mun rigna norðan- og austanlands en það verður úrkomulítið á Suður- og Vesturlandi. Þá gæti hitinn farið upp í 15 stig á Suðurlandi. Hins vegar gæti snjóað á Vestfjörðum á fimmtudag sem fyrr segir, þar sem búist er við að hitinn verði um frostmark. Fólk á miðhálendinu ætti einnig að búa sig undir snjókomu á fimmtudag.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:
Suðlæg eða breytileg átt 3-8 m/s og smáskúrir, en dálítil rigning S- og V-lands síðdegis. Hiti 7 til 13 stig. 

Á miðvikudag:
Breytileg átt 3-8 og stöku skúrir, en fer að rigna A-lands um kvöldið. Hiti breytist lítið. 

Á fimmtudag og föstudag:
Norðanátt og súld eða rigning, en úrkomulítið S-lands. Hiti 5 til 15 stig, hlýjast á S-landi. 

Á laugardag og sunnudag (lýðveldisdagurinn):
Breytileg átt, skýjað með köflum og skúrir víða um land.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.