Fótbolti

Bale gæti verið kyrr hjá Real: Bíður eftir nýjum stjóra eða tilboði frá United

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gareth Bale með Meistaradeildarbikarinn.
Gareth Bale með Meistaradeildarbikarinn. Vísir/Getty
Gareth Bale ætlar að bíða eftir því að Real Madrid ráði nýjan knattspyrnustjóra áður en hann ákveður framtíð sína. Brotthvarf Zinedine Zidane frá félaginu eykur líkurnar á því að Bale verði áfram í Madrid.

Bale tryggði Real Madrid sigurinn í Meistaradeild Evrópu með tveimur mörkum í úrslitaleiknum gegn Liverpool í lok maí. Í viðtölum eftir úrslitaleikinn ýjaði hann hins vegar að því að leikurinn hafi verið sá síðasti fyrir Real þar sem hann vildi fá meiri spilatíma.

Samband Bale og knattspyrnustjórans Zidane var nokkuð stormasamt og talaði Zidane meðal annars ekki við Bale í þrjá tíma að kvöldi úrslitaleiksins eftir ummæli Walesverjans. Zidane tilkynnti öllum að óvörum að hann hefði sagt starfi sínu lausu aðeins nokkrum dögum eftir Evrópusigurinn.

Uppsögn Zidane er sögð hafa sett áætlanir Bale úr skorðum þar sem hann sé tilbúinn að bíða eftir nýjum stjóra og hans sýn áður en hann taki ákvörðun, sérstaklega ef Manchester United gerir ekki kauptilboð í hann.

Heimildarmenn breska blaðsins Independent segja Bale ekki vilja fara til hvaða félags sem er heldur sé listinn mjög stuttur. Þar er United efst á óskalistanum, ákveði hann að fara, og hefur hugur Bale leitað þangað síðustu mánuði. Þá er endurkoma til Tottenham á lista Bale en þau skipti eru talin ólíkleg af fjárhagsástæðum. Nágrannar Tottenham í Chelsea gætu einnig gert hosur sínar grænar fyrir leikmanninum.


Tengdar fréttir

Leikmenn Real kenna Bale um brotthvarf Zidane

Leikmenn Real Madrid kenna liðsfélaga sínum Gareth Bale um brotthvarf Zinedine Zidane frá félaginu, en Frakkinn tilkynnti öllum að óvörum að hann ætlaði að hætta sem knattspyrnustjóri félagsins í gær.

Real vill Pochettino í stað Zidane

Real Madrid vill Mauricio Pochettino, stjóra Tottenham, sem sinn næsta stjóra ef marka má fréttir Sky Sports í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×