Körfubolti

21 ár síðan að ekki einu sinni „flensa“ náði að stoppa Michael Jordan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Scottie Pippen hjálpar Michael Jordan af velli.
Scottie Pippen hjálpar Michael Jordan af velli. Vísir/Getty

11. júní 1997 var einn af mörgum merkilegum dögum á ótrúlegum körfuboltaferli Michael Jordan en í dag er 21 ár liðið frá hinum fræga „flensuleik“ besta körfuboltamanns allra tíma.

Michael Jordan var þarna með félögum sínum í Chicago Bulls í miðjum lokaúrslitum NBA-deildarinnar á móti Utah Jazz. Staðan í einvíginu var 2-2 og nú var komið að fimmta leiknum sem var á heimavelli Jazz.

Utah Jazz var búið að vinna tvo leiki í röð eftir að Chicago komst í 2-0 í einvíginu. Það var því gríðarlega mikið undir þetta kvöld í Salt Lake City.
Jordan veiktist skyndilega á milli fjórða og fimmta leik. Menn hafa deilt um hvort hann hafi fengið matareitrun eða veikst af flensu. Allskonar kenningar og sögur hafa komið fram um það.

Það sem er staðreynd málsins er að Jordan þurfti ekki bara að sigra mótherjann sinn í þessum leik heldur einnig pína sig í gegnum þessi veikindi líka.

Michael Jordan gerði það og gott betur. Hann skoraði 38 stig í leiknum og leiddi Bulls liðið til sigurs áður en hann féll örmagna í fangið á liðsfélaga sínum Scottie Pippen.

Jordan leit ekki vel út á tíma í þessum leik en hann skoraði 17 stig í öðrum leikhluta og sjö stig í 10-0 kafla í lok leiksins. Þessir tveir frábæru kaflar hans lögðu grunninn að sigrinum.

„Þetta er líklega það erfiðasta sem ég hef gert.,“ sagði Michael Jordan eftir leik.
Tölfræði Michael Jordan í þessum leik var annars þannig. Hann skoraði 38 stig á 44 mínútum eftir að hafa hitt úr 13 af 27 skotum sínum þar af 2 af 5 fyrir utan þriggja stiga línuna. 10 af 12 vítum hans fóru rétta leið.

Jordan var einnig með 7 fráköst, 5 stoðsendingar og 3 stolna bolta.

Scottie Pippen var næststigahæstur hjá Chicago Bulls með 17 stig auk þess að taka 10 fráköst og gefa 5 stoðsendingar. Luc Longley skoraði 12 stig en allir aðrir voru með undir 10 stig.

Chicago Bulls tryggði sér síðan meistaratitilinn með því að vinna sjötta leikinn þar sem Jordan var með 39 stig og 11 fráköst. Hann var að sjálfsögðu kosinn besti leikmaður lokaúrslitanna.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.