Innlent

Harkaleg átök Bjössa í World Class og manns með prik ganga á samfélagsmiðlum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Björn segir í samtali við Vísi að engum hafi orðið meint af átökunum.
Björn segir í samtali við Vísi að engum hafi orðið meint af átökunum. Mynd/Samsett
Myndband af Birni Leifssyni, eiganda líkamsræktarstöðvanna World Class, þar sem hann sést takast nokkuð harkalega á við mann sem vopnaður er priki, hefur komist í nokkra dreifingu á samfélagsmiðlum í dag. Engum varð þó meint af téðum viðskiptum en kalla þurfti á lögreglu vegna atviksins.

Björn segir í samtali við Vísi að maðurinn, sem hann glímir við í myndbandinu, hafi verið að æfa með prikinu og hafi auk þess verið margar klukkustundir við æfingar í stöðinni, í annarlegu ástandi. Maðurinn hafi neitað að yfirgefa æfingasalinn í dag þrátt fyrir beiðni Björns þess efnis.

„Þetta var grey sem var útúrdópaður og ég gekk upp að honum og spurði hvort hann vildi ekki fara og koma aftur þegar hann væri í betra ástandi en hann neitaði. Hann réðst á mig og við tókum hann svo, leiddum hann út og fengum lögregluna til að taka hann,“ segir Björn.

Þá segir hann manninn einnig hafa verið dónalegan við starfsfólk í afgreiðslu stöðvarinnar. Enginn hafi þó slasast í átökunum.

„Þetta var mjög saklaust og lögreglan fjarlægði hann af staðnum,“ segir Björn og ítrekar að allt hafi farið vel.

Myndbandið, sem nú gengur manna á milli á samfélagsmiðlum, má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×