Innlent

Átti að vera vísað úr landi í nótt en fær ríkisborgararétt í staðinn

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Konunni gafst ekki tækifæri til að kæra úrskurð Útlendingastofnunar vegna mistaka
Konunni gafst ekki tækifæri til að kæra úrskurð Útlendingastofnunar vegna mistaka
Hælisleitandinn Nargiza Salimova, sem hafði fengið tilkynningu um að henni yrði vísað úr landi í nótt, mun að öllum líkindum verða íslenskur ríkisborgari á morgun.

Kjarninn hefur eftir lögfræðingi hennar að fyrir vikið sé búið að fresta framkvæmd þess að vísa Nargizu úr landi en frumvarpið verður að öllum líkindum borið upp til atkvæðagreiðslu á Alþingi í fyrramálið.

Hefð er fyrir að tugum erlendra ríkisborgara sé veitt íslenskt ríkisfang með lagafrumvarpi í lok þings en sú framkvæmd hefur verið gagnrýnd.

Mál Nargizu hefur vakið nokkra athygli og meðal annars verið til umfjöllunar í Kjarnanum. Hún er frá Kirgistan en kom til Íslands fyrir rúmum átta mánuðum og sótti um alþjóðlega vernd. Útlendingastofnun hafnaði þeirri umsókn en henni gafst aldrei tækifæri til að kæra þann úrskurð vegna mistaka hjá fyrrverandi talsmanni hennar.

Nargiza hefur farið í skýrslutöku til lögreglu vegna gruns um að hún sé fórnarlamb mansals. Eiginmaður hennar hvarf úr haldi lögreglu í heimalandinu og var hún að sögn ofsótt eftir að hún fór að grennslast fyrir um afdrif hans.

Þá segir hún að smyglarinn sem kom henni til landsins hafi tekið vegabréf hennar og látið sig hverfa. Í viðtali við Kjarnann sagði hún það sína heitustu ósk að fá börnin sín tvö frá Kirgistan til Íslands.

Öðlist Nargiza íslenskan ríkisborgararétt í fyrramálið er ljóst að sá draumur er töluvert nær því að verða að veruleika.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×