Innlent

Þekktu rauðu ljósin: „Ég hlustaði ekki á viðvörunarbjöllurnar“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Herferðin Þekktu rauðu ljósin miðar að því að minna á að ofbeldi birtist smátt og smátt í samböndum, að ýmis viðvörunarmerki eru oft undanfari ofbeldisins.
Herferðin Þekktu rauðu ljósin miðar að því að minna á að ofbeldi birtist smátt og smátt í samböndum, að ýmis viðvörunarmerki eru oft undanfari ofbeldisins. Skjáskot/Youtube
Sonja Einarsdóttir var í ofbeldissambandi í tæp 18 ár. Eins og fjallað hefur verið um hér á Vísi hefur hún verið í baráttu við kerfið í 20 mánuði til þess að ganga frá skilnaði, forræðisdeilu og fjárskiptum við ofbeldismanninn. Í myndbandi sem er hluti af herferðinni Þekktu rauðu ljósin, segir Sonja brot af sinni sögu og lýsir hættumerkjunum sem hún upplifði í eigin sambandi

„Skýringin á því að ég hlustaði ekki á viðvörunarbjöllurnar er bara fyrst og fremst að ég gefst ekki upp. Ég labba ekki í burtu þótt að á móti blási stundum.“

Sonja segir að enginn hafi vitað af ofbeldinu og ráðleggur öðrum í sömu stöðu að láta einhvern vita.

„Lærðu að þekkja rauðu ljósin. Hlustaðu á ónotatilfinninguna í maganum og segðu frá.“

Herferðin Þekktu rauðu ljósin er svar Kvennaathvarfsins og Bjarkarhlíðar við síaukinni eftirspurn ungs fólk eftir aðstoð vegna ofbeldis í nánum samböndum. Umræðan um ofbeldi í nánum samböndum beinist oft að fólki sem hefur búið saman og ofbeldið átt sér stað innan veggja heimilisins en skortur er á efni sem beint er til fólks sem er að hefur nýhafið samband.

Herferðin miðar að því að minna á að ofbeldi birtist smátt og smátt í samböndum, að ýmis viðvörunarmerki eru oft undanfari ofbeldisins.  Vitundarvakningin felst í stuttum myndböndum þar sem nokkrar hugrakkar konur sem stigið hafa út úr ofbeldissamböndum líta til baka og ræða viðvörunarljósin sem birtust í sambandinu þó þær hafi ekki séð þau fyrr en of seint.

„Það er von okkar að þessi vitundarvakning auki skilning fólks á ofbeldi í nánum samböndum og hjálpi fólki að sjá rauðu ljósin áður en til ofbeldis kemur.“

Kynntu þér úrlausnir hjá Bjarkarhlíð og Kvennaathvarfinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×