Erlent

Handtekin 31 ári eftir að lík dóttur þeirra fannst við þjóðveg í Frakklandi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lík stúlkunnar fannst við þjóðveg A10 skammt frá borginni Blois.
Lík stúlkunnar fannst við þjóðveg A10 skammt frá borginni Blois. google maps
Franska lögreglan hefur handtekið foreldra stúlku sem fannst látin við þjóðveg í Frakklandi árið 1987. Var lík stúlkunnar afar illa farið en kennsl höfðu aldrei verið borin á líkið þar til nýlega þegar DNA-sýni sem tekið var úr bróður hennar í óskyldu máli tengdi þau saman.

Málið hefur því verið óupplýst í 31 ár. Foreldrarnir verða hins vegar yfirheyrðir af dómara í dag og gætu verið ákærð fyrir morð.

Ekki hefur verið greint frá því hverjir foreldararnir eru en talið er að þau séu á sjötugsaldri. Lögreglan hefur ekki tjáð sig neitt um málið en fréttir herma að foreldarnir hafi verið handteknir á þriðjudag.

Lík stúlkunnar fannst við A10-þjóðveginn nálægt borginni Blois í ágúst 1987. Yfirvöld gátu ekki borið kennsl á hana á sínum tíma en talið var að hún hefði verið á milli þriggja og fimm ára gömul þegar hún lést.

Miklir áverkar voru á líkinu og bar stúlkan þess merki að hafa verið beitt miklu og langvarandi ofbeldi. Þannig var hún með brotin bein og brunasár eftir straujárn.

Stúlkan fékk viðurnefnið „litli píslarvotturinn á A10“ og hún lögð til hinstu hvílu í ómerktri gröf.

 

Lögreglan hefur verið ráðþrota í málinu í áratugi. Árið 2012 var það opnað að nýju þegar mynd af stúlkunni var dreift og óskað eftir vitnum.

DNA-sýnið var tekið úr bróður stúlkunnar í fyrra þegar hann var handtekinn fyrir ofbeldisglæp. Margra mánaða rannsókn leiddi lögreglu síðan til foreldra stúlkunnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×