Erlent

Nýtt diskastell forsetahjónanna skapar illdeilur í Frakklandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Forsetahjúin í Frakklandi.
Forsetahjúin í Frakklandi. Vísir/Getty

Forsetahjónin í Frakklandi eru nú miðpunktur illdeilna í Frakklandi vegna ásakana um að forsetahöllinn sé að eyða háum fjárhæðum í nýtt diskastell fyrir höllina. Á sama tíma er forsetinn sagður hafa kvartað yfir háum fjárhæðum sem fara í franska velferðarkerfið. BBC greinir frá.

Það var Brigitte Macron, forsetafrú Frakklands og eiginkona Emmanuel Macron, forseta Frakklands, sem valdi hið nýja stell. Samanstendur það af 1.200 hlutum og er sagt kosta 50 þúsund evrur, um sex milljónir króna.

Þörfin fyrir endurnýjun diskastellsins er sögð vera mikil enda elstu hlutar þess taldir vera frá sjötta áratug síðustu aldar. Embættismenn segja mjög mikilvægt að endurnýja það sökum aldurs og að margir hlutar þess séu týndir.

Í gegnum tíðina hefur postulínsverksmiðjan Sèvres framleitt diskastell fyrir forsetahöllina og á því verður engin breyting nú. Diskarnir eru sagðir vera mikil listaverk en mörgum þykir þeir þó vera dýrir og að ekki sé öll sagan sögð þegar kemur að verðinu á hinum handmáluðu diskum. 

„Endalaust“ af fjármunum í velferðarkerfið

Hefur satírublaðið Le Canard enchaîné reiknað út að raunverulegur kostnaður diskanna sé um 400 evrur á disk, sem myndi tífalda verðið sem gefið hefur verið upp.

Líklega væri þetta ekki mikið vandamál ef myndband af Macron að ræða um kostnaðinn við velferðarkerfið væri ekki í töluverðri dreifingu í Frakklandi.

„Sjáið þið bara hvar við stöndum í velferðarmálum. Við setjum endalaust af pening í niðurgreiðslu og bætur og fólk er ennþá fátækt,“ heyrist Macton segja í myndbandinu, sem dreift var af samskiptastjóra Macron. Enn fremur segir hann að eitthvað þurfi að breytast svo fólk geti brotist út úr vítahring fátæktar.Voru franskir Twitter-notendur fljótir að grípa ummæli Macron á lofti og setja í samhengi við umdeilda diskastell, líkt og sjá má hér að neðan.

„Þú setur bílfarma af peningum í diskastell og fólk er enn ekki ánægt,“ segir í tístinu hér að neðan.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.