Íslenski boltinn

Logi: FH-ingurinn bjóst ekki við því að fá víti

Ástrós Ýr Eggertsdóttir í Kaplakrika skrifar
Logi hefur ekki haft mikið tilefni til fögnuðar undanfarið.
Logi hefur ekki haft mikið tilefni til fögnuðar undanfarið. vísir/ernir
Þjálfari Víkings, Logi Ólafsson, var ekki sáttur í leikslok og sagðist engar afsakanir hafa fyrir frammistöðu síns liðs. Víkingar lágu 3-0 gegn FH í Kaplakrika í kvöld í Pepsi deild karla.

„Við byrjuðum leikinn vel en svo hleypum við FH inn í leikinn. Það er bara stórhættulegt. Við bjóðum þeim upp á að spila sinn leik og það sem þeir eru bestir í án þess að veita þeim nógu mikla mótspyrnu. Það var það sem felldi okkur í dag,“ sagði Logi eftir leikinn.

Víkingur fékk dæmda á sig vítaspyrnu snemma leiks sem Steven Lennon skoraði úr. Vítaspyrnan kom eftir klafs í teignum upp úr hornspyrnu þar sem brotið var á Davíð Þór Viðarssyni, fyrirliða FH.

„Við teljum að þetta hafi ekki verið víti. Sá sem fékk vítið fyrir hönd FH hann bjóst ekki við að fá víti út á þetta heldur svo það segir sig sjálft að þetta hlýtur að vera mjög vafasamt. En það breytir því ekki að við eigum ekki að fá á okkur tvö mörk í viðbót.“

Lið Víkings gerði sér heldur enga greiða með arfarslökum sóknarleik þar sem lítið var að frétta.

„Við náum ekki að búa okkur til færi. Við töpuðum fyrir góðu liði sem var betra heldur en við í dag. Ég get ekki, og ætla ekki að reyna að vera með einhverjar afsakanir þegar liðið tapar 3-0. Það er bara ekki hægt.“

Framundan er nokkuð langt hlé í Pepsi deildinni en Víkingur á næst leik 1. júlí. Logi sagðist ekki hafa miklar áhyggjur af því að tapið sæti í strákunum allan þann tíma.

„Við hittumst á morgun og förum yfir málin og setjum þetta aftur fyrir okkur. Nýtum þennan tíma sem við höfum í fríi til að koma sterkir til baka,“ sagði Logi Ólafsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×