Fótbolti

Jóhann Berg: Þetta var erfitt augnablik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jóhann Berg gat ekki fagnað með liðsfélögum sínum eftir leik.
Jóhann Berg gat ekki fagnað með liðsfélögum sínum eftir leik. Vísir/Getty
„Ég veit það ekki. Það verður bara að koma í ljós. Ég fæ eitthvað í kálfann og þurfti að fara af velli. Svo verður bara að koma í ljós á morgun hversu alvarlegt þetta er,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson í viðtali við íslenska fjölmiðla eftir leikinn gegn Argentínu á HM í dag.

Jóhann Berg fór meiddur af velli í síðari hálfleik en virtist hafa meiðst án snertingar. Í ljós kom að hann tognaði á kálfa.

„Það er ekkert hægt að segja núna um hvernig útlitið er. Það var leiðinlegt að þurfa að fara út af. Við verðum bara að sjá til á morgun,“ sagði hann en Jóhann Berg var sýnilega niðurlútur eftir leikinn í dag.

„Þetta var erfitt augnablik. Þetta er samt hluti af fótboltanum og svona lagað getur gerst. Maður verður bara að vona það besta. Vonandi að ég nái eitthvað af því sem eftir er af þessu móti.“

Hann segir leikinn hafa verið gríðarlega erfiðan og að hann hafi nánast verið eins og bakvörður allan leikinn.

„Allir voru að verjast gríðarlega mikið og ekki mikið af möguleikum fram á við. En samt þegar við sóttum, sérstaklega í fyrri hálfleik, áttum við örugglega fleiri færi en þeir. En að fá stig gegn jafn góðu liði og Argentínu er frábært,“ sagði Jóhann Berg að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×