Erlent

Harvard sagður mismuna gegn umsækjendum af asískum uppruna

Sylvía Hall skrifar
Nemendur af asískum uppruna eru sagðir eiga minni möguleika á að komast inn í hinn vinsæla Harvard-háskóla en nemendur af öðrum uppruna.
Nemendur af asískum uppruna eru sagðir eiga minni möguleika á að komast inn í hinn vinsæla Harvard-háskóla en nemendur af öðrum uppruna. Vísir/Getty
Samtök sem berjast fyrir réttlátu umsóknarferli hafa sakað Harvard-háskóla um að mismuna gegn umsækjendum af asískum uppruna og segja skólann taka nemendur af öðrum uppruna fram yfir þá, þrátt fyrir að þeir af asískum uppruna séu í mörgum tilfellum hæfari.

Þá hafa samtökin höfðað málsókn gegn háskólanum og kemur meðal annars fram í málsókninni að Harvard raði nemendum af asískum uppruna neðst þegar kemur að þáttum á borð við geðþokka.

Möguleikarnir aukast ef þú ert af ákveðnum uppruna

Málsóknin var tekin fyrir í dómsal í Boston á föstudag og sögðu samtökin að margt benti til þess að skólinn leitaði eftir því að jafna hlut kynþátta innan skólans og því væri uppruni fólks orðinn stór þáttur í umsóknarferli umsækjanda.

„Umsækjandi af asískum uppruna með 25% líkur á inngöngu ætti til að mynda 35% líkur ef hann væri hvítur, 75% ef hann væri af suður-amerískum uppruna og 95% líkur á inngöngu ef hann væri af afrískum uppruna.“

Þá segja samtökin að háskólinn hafi komist að sömu niðurstöðu í sjálfstæðri rannsókn sem var framkvæmd árið 2013, en þeir hefðu aldrei birt niðurstöðurnar opinberlega.

Harvard hefur neitað þessum ásökunum og segir hlutfall nemenda af asískum uppruna hafa hækkað innan skólans, en það er um 22,2%. Nemendur af afrískum uppruna eru 14,6% og nemendur af suður-amerískum uppruna eru 11,6%. Aðrir kynþættir, sem að stærstum hluta eru hvítir, eru um 50% nemenda skólans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×