Skoðun

Gagnleg reiði og hjálpsamur leiði

Elva Björk Ágústsdóttir skrifar
Við reynum mörg að forðast neikvæðar tilfinningar. Okkur finnst ekki gott að líða illa, finna fyrir reiði eða leiða og reynum því oft að hundsa þessar tilfinningar, dreifa huganum eða skríða upp í rúm og sofa tilfinningarnar af okkur. En þessar tilfinningar eru mannlegar og jafn eðlilegar og góðar tilfinningar.

Neikvæðar tilfinningar geta verið gagnlegar. Kvíði getur til dæmis aukið nákvæmni okkar, leiði getur verið merki um þörf fyrir tilbreytingu í lífinu og fleiri krefjandi verkefni, öfund og vonbrigði geta verið merki um langanir okkar og óskir.

Dapurleiki eða leiði getur til að mynda styrkt minnið okkar og nákvæmni. Meðan tilfinningar eins og gleði og jákvæðni eru merki um að við séum í öruggu og þekktu umhverfi eða aðstæðum þá geta tilfinningar eins og leiði eða dapurleiki verið merki um að aðstæðurnar sem við erum í séu nýjar, óöruggar og jafnvel krefjandi. Við þurfum þess vegna að vera meira meðvituð um umhverfið okkar, við verðum meira vakandi fyrir breytingum og smáatriðum.

Aðrar neikvæðar tilfinningar geta einnig verið hjálplega. Sektarkennd eða samviskubit eru tilfinningar sem við upplifum oft þegar okkur finnst við hafa gert eitthvað rangt. Þessar tilfinningar geta verið ansi vondar meðan á þeim stendur en gagnlegar að því leytinu að þær virka sem einskonar siðferðislegur áttaviti og geta gert okkur að betri manneskjum.

Til að læra eitthvað af neikvæðu tilfinningum okkar og sjá hve gagnlegar þær geta verið er gott að velta fyrir sér af hverju við erum leið, reið, döpur, stressuð eða afbrýðisöm.

Einnig getur verið hjálplegt að velta fyrir sér einstökum tilvikum þar sem við upplifðum neikvæðar tilfinningar og hvaða breytingar tilfinningarnar höfðu í för með sér. Til dæmis þegar við vorum reið og fengum kjark til að setja niður fótinn og standa með okkur sjálfum, þegar okkur leiddist og við tókum þá að okkur ögn fleiri krefjandi verkefni en við töldum okkur ráða við eða þegar við öfundum vin fyrir starfið hans sem hafði þau áhrif að við sóttum um svipað starf sjálf.

Næst þegar þú finnur fyrir neikvæðri tilfinningu skaltu prófa að staldra aðeins við og velta fyrir þér af hverju þér líður svona í stað þess að pirrast yfir því að líða illa eða forðast tilfinninguna.

Höfundur er sálfræðikennari og námsráðgjafi




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×