Erlent

Súfisti hengdur fyrir morð á lögreglumönnum eftir stutt réttarhöld í Íran

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Dulspeki súfista fellur ekki í kramið hjá trúarleiðtogum og yfirvöldum í Íran
Dulspeki súfista fellur ekki í kramið hjá trúarleiðtogum og yfirvöldum í Íran Vísir/Getty
Rúmlega fimmtugur íranskur súfisti, sem var dæmdur til dauða fyrir að keyra á hóp lögreglumanna í Teheran fyrr á þessu ári, var hengdur í morgun. Mannréttindasamtök segja að hann hafi ekki fengið sanngjörn réttarhöld.

Uppruna málsins má rekja til orðróms um að yfirvöld í Íran ætluðu að handtaka níræðan trúarleiðtoga súfista. Það leiddi til mótmæla í höfuðborginni.

Þegar óeirðarlögregla var kölluð út til að stöðva mótmælin keyrði rúta inn í hóp þeirra með þeim afleiðingum að fimm lögreglumenn létu lífið og 30 slösuðust.

Yfirvöld sögðu ljóst að um viljaverk væri að ræða þar sem ökumaður rútunnar var sjálfur súfisti. Mannréttindasamtökin Amnesty International segja að fyrir vikið hafi maðurinn aldrei fengið sanngjörn réttarhöld.

Súfistar eru þyrnir í augum stjórnvalda í Teheran sem hafa hrakið marga trúarleiðtoga þeirra úr landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×