Innlent

Snör handtök afstýrðu stórtjóni á Keflavíkurflugvelli

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Flugeldhúsið er skammt frá flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli.
Flugeldhúsið er skammt frá flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Fréttablaðið/Andri Marinó.
„Ef að þetta hefði fengið að þróast í örfáar mínútur í viðbót hefði getað orðið gríðarlegt tjón,“ segir Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja um eld sem kom upp í þaki flugeldhúss IGS á Keflavíkurflugvelli í dag.

Allt tiltækt lið slökkviliðsins var kallað út vegna eldsins í morgun en slökkvilið naut einnig liðsinnis flugþjónustu Isavia við slökkvistarfið.

„Þeir fóru á staðinn og þar kemur í ljós að það er eldur í þakinu en sem betur fer tókst að stoppa það áður en að það yrði eitthvað meiriháttar,“ segir Jón.

Verið var að bræða tjörupappa á þakið þegar eldurinn braust út en framkvæmdir hafa staðið yfir á þaki hússins, sem staðsett er í grennd við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli.

Ljóst er að snör handtök þeirra sem voru að starfi á þakinu, sem og slökkviliðsins hafi afstýrt stórtjóni, en greiðlega gekk að slökkva eldinn

„Þetta var ekki orðinn mjög mikill eldur og þeir sem voru að vinna þarna voru nú búnir að sprauta á þetta með slökkvitækjum en það þarf ekki margar mínútur til þess að svona verði að stórbáli þannig að það tókst á skömmum tíma að stoppa þetta.“ segir Jón.


Tengdar fréttir

Slökktu eld á Keflavíkurflugvelli

Allt tiltækt lið slökkviliðs á Suðurnesjum var kallað út vegna elds í þaki flugeldhúss IGS á Keflavíkurflugvelli um klukkan ellefu í dag




Fleiri fréttir

Sjá meira


×