Erlent

Milljónir horft á myndband af lækni gera lítið úr kvíðasjúklingi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Læknirinn virtist ekki hafa mikla trú á að ástand sjúklingsins væri raunverulegt.
Læknirinn virtist ekki hafa mikla trú á að ástand sjúklingsins væri raunverulegt. Vísir
Læknir á neyðarmóttöku El Camino spítalans í Kaliforníu hefur verið sendur í leyfi eftir að hann gerði lítið úr sjúklingi sem leitaði á spítalann. Faðir sjúklingsins tók orðaskiptin upp á myndband sem hátt í fimm milljónir hafa horft á.

Hinn tvítugi Samuel Bardwell leitaði á neyðarmóttökuna eftir að hafa fengið kvíðakast eftir körfuboltaæfingu í síðustu viku. Á myndbandinu má sjá hann liggja í sjúkrarúmi á sjúkrahúsinu með lækninn standandi yfir sér.

Krefst læknirinn þess að hann reisi sig við en þegar Bardwell segist ekki geta það virðist læknirinn hafa litla trú á því.

„Þú ert minnst veikur allra sem eru hérna,“ segir læknirinn við hann og byrjar að toga hann á fætur. Þegar Bardwell segist eiga erfiðleika með öndun fer læknirinn að hlæja og spyr hann kaldhæðnislega hvort að hann sé þá á lífi.

Óskar Bardwell þá eftir kvíða- og verkjalyfjum og spyr læknirinn þá hvort að hann sé á höttunum eftir „eiturlyfjum.“

Í samtali við fjölmiðla segir faðir mannsins að sonur hans hafi tekið lyfið Klonopin sem kvíðastillandi lyf þegar á þurfi að halda og miðað við þær upplýsingar sem þau hafi fengið eftir að myndbandið var birt megi rekja ástand hans til fráhvarfa eftir að hafa sleppt því að taka lyfið í nokkra daga.

Yfirmaður sjúkrahússins hefur beðið feðgana afsökunar vegna málsins en læknirinn umræddi hefur verið sendur í tímabundið leyfi á meðan málið er rannsakað af hálfu sjúkrahússins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×