Handbolti

Guðjón Valur og Alexander náðu ekki að stela titlinum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Alexander Petersson í leik með Löwen.
Alexander Petersson í leik með Löwen. vísir/getty
Guðjón Valur Sigurðsson, Alexander Petersson og félagar í liði Rhein-Neckar Löwen enduðu í öðru sæti í þýsku Bundesligunni í handbolta en lokaumferðin var leikin í dag.

Fyrir lokaumferðina munaði aðeins einu stigi á Rhein-Neckar og Flensburg-Handewitt í efsta sætinu. Rhein-Neckar þurfti því að vinna sinn leik og treysta á að Flensburg tapaði stigi, helst báðum, gegn Göppingen.

Alexander og Guðjón Valur skiluðu sínu, Alexander með fjögur mörk og Guðjón eitt, í nokkuð öruggum sigri Ljónanna á Leipzig, 282-25. Á sama tíma sigraði Flensburg hins vegar sinn leik 22-21 og tryggði sér Þýskalandsmeistaratitilinn. Athyglisvert var að Göppingen var aðeins með sjö útileikmenn á leikskýrslu.

Bjarki Már Elísson skoraði tvö mörk í sigri Füchse Berlin á Hüttenberg 28-23. Ragn­ar Jó­hanns­son gerði fimm mörk fyr­ir Hüttenberg. Rúnar Kárason gerði eitt mark í 31-29 sigri Hannover-Burgdorf á Gummersbach.

Lærisveinar Aðalsteins Eyjólfssonar í Erlangen töpuðu fyrir Eulon Ludwigshafen á útivelli 32-29 en Alfreð Gíslason stýrði Kiel til stórsigurs á Minden 32-25.

Íslensku landsliðsmennirnir geta nú farið til móts við landsliðið sem er að undirbúa sig fyrir umspil við Litháen um laust sæti á HM 2019. Leikirnir tveir eru 8. júní ytra og 13. júní í Laugardalshöll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×