Enski boltinn

Vill að Gerrard verði spilandi stjóri hjá Rangers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard í góðgerðaleik Dirk Kuyt  á dögunum.
Steven Gerrard í góðgerðaleik Dirk Kuyt á dögunum. Vísir/Getty
Steven Gerrard er tekinn við sem knattspyrnustjóri Rangers í Skotlandi en ein goðsögnin úr sögu Rangers vill sjá Gerrard ganga enn lengra.

Andy Goram var markvörður Rangers-liðsins á árunum 1991 til 1998 þegar félagið vann skosku deildina sex sinnum. Hann hefur kallað eftir því að Gerrard taki skóna af hillunni.

Steven Gerrard setti knattspyrnuskóna á hilluna árið 2016 og hóf störf sem þjálfari hjá Liverpool. Hann stökk hinsvegar á það þegar honum bauðst að taka við liði Rangers á dögunum.

Gerrard lék síðast með LA Galaxy í bandarísku deildinni en allan sinn feril í Evrópu spilaði hann með Liverpool.

„Ef ég væri Steven Gerrard þá myndi ég byrja á því að taka skóna ofan af hillunni. Hann er tíu sinnum betri en allir þeir sem spila á miðjunni hjá Rangers í dag,“ sagði Andy Goram í viðtali við Daily Mail í Skotlandi.

„Hvað er hann gamall? 38 ára. Inn á völlinn með hann,“ bætti Goram við. Gerrard spilaði síðast á Bretlandseyjum með Liverpool tímabilið 2014-15.

„Ef þið hafið skoðað hvernig Rangers-liðið spilaði á síðasta tímabili þá getur enginn sannfært mig um að Steven Gerrard myndi ekki standa sig miklu betur en allir leikmenn liðsins í dag,“ sagði Goram.

„Hann væri yfirmaður á miðjunni á móti flestum liðum. Eiginlega öllum liðum ef ég segi alveg eins og er,“ sagði Goram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×