Enski boltinn

Fyrirliði Svisslendinga kominn í Arsenal-búninginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephan Lichtsteiner í Arsenal búningnum.
Stephan Lichtsteiner í Arsenal búningnum. Vísir/Getty
Arsenal kynnti í dag nýjan leikmann en hinn 34 ára gamli Stephan Lichtsteiner hefur samið við enska úrvalsdeildarfélagið og verður fyrsti leikmaðurinn sem nýi knattspyrnustjórinn Unai Emery fær á Emirates.

Lichtsteiner kemur á frjálsri sölu frá Juventus en hann er á leiðinni á HM í Rússlandi með svissneska landsliðinu þar sem hann mun bera fyrirliðaband svissneska landsliðsins.





Stephan Lichtsteiner spilaði í sjö tímabil með Juventus á Ítalíu og varð ítalskur meistari á öllum tímabilunum sjö.

Hann spilaði 27 leiki með Juventus í ítölsku deildinni á síðustu leiktíð og alls 201 deildarleik á þessum sjö árum með Juve.

Stephan Lichtsteiner hefur spilað 99 landsleiki fyrir Sviss en tvö af átta landsliðsmörkum hans komu í leik á móti Íslandi í Bern í september 2013.

„Stephan kemur með gríðarlega mikla reynslu og leiðtogahæfileika inn í okkar lið. Hann er leikmaður með mikla hæfileika sem kemur inn með jákvæðni og ákveðni. Stephen mun gera okkar lið betra bæði innan sem utan vallar,“ sagði Unai Emery á heimasíðu Arsenal.

„Þetta er frábær stund fyrir mig að koma til Arsenal eftir að hafa verið hjá Juventus. Markmiðið er að komast aftur í Meistaradeildina því það er erfitt að horfa á lið eins og Arsenal fyrir utan Meistaradeildina,“ sagði  Stephan Lichtsteiner.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×