Innlent

Lærði að fara út úr líkamanum

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Lengri útgáfu af viðtalinu við Áslaugu Maríu má sjá í spilaranum hér að ofan.

Kona sem beitt var grófu ofbeldi af foreldrum sínum í æsku segir skömm og niðurrif hafa fylgt sér alla tíð síðan. Það hafi tekið hana mörg ár að fullvissa sig um að hún væri í raun einhvers virði. Hún segir það krefjandi að vera til í samfélagi þar sem fólk skilur ekki.

Sagði sögu sína í fyrsta sinn

Áslaug María sagði sögu sína í fyrsta sinn opinberlega á málþingi um ofbeldi í nánum samböndum í dag. Áslaug notast ekki við eftirnafn, enda vill hún hvorki kenna sig við móður sína, sem beitti hana grófu andlegu og líkamlegu ofbeldi, né föður sinn, sem auk þess beitti hana grófu kynferðisofbeldi. Í eitt skiptið  þegar hún var 11 ára gömul streittist hún á móti þegar faðir hennar ætlaði að koma fram vilja sínum, en fjölskyldan bjó á 8. hæð í blokk.

„Hann lyfti mér yfir svalirnar og hann segir við mig: Ég mun sleppa þér. Á ég að sleppa þér?“ lýsti Áslaug María á málþinginu í dag.

Þó faðir Áslaugar hafi ekki sleppt henni þennan dag einkenndist æska hennar af stöðugri misnotkun og niðurlægingu af hendi foreldra sinna. Hún segist á tímabili hafa talið að þetta væri einfaldlega eðlilegt fjölskyldulíf. Flestir dagar hafi hins vegar gengið út á að lifa af, frekar en að lifa.

Bjó sér til hugarheim sem hún flúði inn í

„Að vera barn í svona aðstæðum þegar svona ofboðslega mikið ofbeldi á sér stað, þá er maður náttúrulega bara barn sem lærir að lifa í sínum eigin hugarheimi. Maður lærir að fara út úr líkamanum. Maður býr sér til einhvern hugarheim sem maður getur flúið inn í,“ segir Áslaug María.

Á málþinginu sagði Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, samfélagið vanmeta áhrif ofbeldis á andlega líðan barna. Undir þetta tekur Áslaug sem sjálf dróst inn í sambönd sem einkenndust af ofbeldi á fullorðinsárum og gekk í gegnum mikla erfiðleika um langa hríð. Þó vel gangi í dag standi eftir stöðug þörf til að sanna sig.

„Þetta er rosa krefjandi starf. Að vera til í samfélagi þar sem fólk skilur ekki. Maður hefur svo mikla þörf fyrir viðurkenningu. Að maður sé eitthvað. Að maður sé góður og duglegur. Þá leggur maður sig ofboðslega fram en það er líka ofboðslega erfitt,“ segir Áslaug.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×