Erlent

Örlar á andófi hjá repúblikönum gegn njósnasamsæri Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Ryan sækist ekki eftir endurkjöri í haust. Mögulegt er að það sé ástæðan fyrir því að hann treysti sér til að snupra forsetann nú.
Ryan sækist ekki eftir endurkjöri í haust. Mögulegt er að það sé ástæðan fyrir því að hann treysti sér til að snupra forsetann nú. Vísir/AFP
Paul Ryan, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og einn helstu leiðtoga Repúblikanaflokksins, segist ekkert hafa séð sem bendi til þess að alríkislögreglan FBI hafi komið fyrir njósnara í röðum framboðs Donalds Trump forseta árið 2016, þvert á aðdróttanir forsetans. Ryan varaði Trump jafnframt við að reyna að náða sjálfan sig.

Trump hefur nú um nokkra vikna skeið borið út samsæriskenningar um að FBI og dómsmálaráðuneytið hafi njósnað um framboð hans af pólitískum ástæðum. Ekkert hefur hins vegar komið fram sem styður þær ásakanir. FBI notaði hins vegar heimildarmann sem ræddi við að minnsta kosti þrjá starfsmenn framboðsins til að afla upplýsinga um samskipti þess við Rússa.

Leiðtogar Repúblikanaflokksins hafa að mestu leyti setið á hliðarlínunni á meðan Trump forseti hefur með þessum hætti og öðrum reynt að grafa undan trúverðugleika æðstu löggæslustofnana Bandaríkjanna sem rannsaka hvort að forsetaframboð hans hafi átt í samráði við Rússa árið 2016.

Því vekur ofanígjöf Ryan við forsetann nú athygli. Á blaðamannafundi í gær sagðist hann taka undir með flokksbróður sínum Trey Gowdy sem sagði í síðustu viku að enginn fótur væri fyrir njósnaásökunum Trump. Ryan sagði þó að afla þyrfti frekari upplýsingar eins og sumir flokksbræðra hans hafa krafist af dómsmálaráðuneytinu.

Þingmenn á útleið setja ofan í við Trump

Ryan og Gowdy voru á meðal þingmanna sem FBI og dómsmálaráðuneytið veittu upplýsingar um heimildarmann FBI í síðasta mánuði eftir nær linnulausan þrýsting þingmanna repúblikana og Trump sjálfs.

„Ég held að þegar forsetinn kemst að því hvað gerðist þá verði hann ekki aðeins sáttur heldur verður hann ánægður með að við höfum FBI sem tók alvarlega það sem hún heyrði,“ sagði Gowdy eftir þá fundi.

Richard Burr, formaður leyniþjónustunefndar öldungadeildarinnar sem rannsakar meint samráð framboðs Trump við Rússa, hefur einnig tekið undir mat Gowdy. Þá gagnrýndi Tom Rooney, þingmaður repúblikana sem á sæti í leyniþjónustunefnd fulltrúadeildarinnar, Trump harðlega fyrir að dreifa út samsæriskenningum um njósnir.

„Hver er tilgangurinn með því að segja að það hafi verið njósnari í framboðinu þegar það var enginn?“ spurði Rooney sem taldi það ekki hjálpa til að forsetinn ylli ringulreið með þessum hætti.

Ryan og Gowdy hafa báðir fengið bágt fyrir frá sumum flokkssystkinum sínum vegna þessa. Þeir og Rooney eiga það sammerkt að enginn þeirra ætlar að sækjast eftir endurkjöri í þingkosningum í nóvember.

Trump hefur farið mikinn gegn FBI og dómsmálaráðuneytinu undanfarnar vikur. Hann hefur sakað þessar æðstu löggæslustofnanir landsins um að hafa njósnað um framboð sitt af pólitískum ástæðum.Vísir/AFP

Ætti ekki að reyna að náða sjálfan sig

Ryan var einnig spurður út í orð Trump um að hann hefði „algert vald“ til þess að náða sjálfan sig.

„Ég veit ekki tæknilega svarið við þessari spurningu en ég held augljóslega að svarið sé að hann ætti ekki að gera það og enginn er yfir lögin hafinn,“ svaraði þingforsetinn.

Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings, lýsti svipaðri afstöðu á þriðjudag, að sögn New York Times.

„Hann veit augljóslega að það er ekki eitthvað sem hann myndi eða ætti að gera,“ sagði McConnell þá.


Tengdar fréttir

Engar sannanir fyrir „njósnara“ í röðum Trump

Þingmaðurinn Trey Gowdy, formaður eftirlitsnefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og háttsettur Repúblikani, segir ekkert til í því að að Alríkislögregla Bandaríkjanna, FBI, hafi komið „njósnara“ fyrir meðal starfsmanna framboðs Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×