Erlent

Trump sakar Kanadamenn um að brenna Hvíta húsið áður en Kanada var til

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Leiðtogar Kanada og Bandaríkjanna eru ekki beint bestu vinir þessa dagana
Leiðtogar Kanada og Bandaríkjanna eru ekki beint bestu vinir þessa dagana Vísir/Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur enn á ný vakið kátínu netverja með staðreyndavillum. Í þetta sinn sagði Trump að Kanadamenn hefðu brennt Hvíta húsið til grunna og því væri réttlætanlegt að skilgreina tolla á kanadískar vörur sem hluta af þjóðaröryggisáætlun.

Ummælin féllu í símtali Trumps við Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, fyrir mánaðamót en ekki var greint frá þeim fyrr en í gær. Sjónvarpsstöðin CNN ræddi við heimildamann sem sagði að samtalið hafi ekki farið vel fram og báðir menn verið mjög greinilega pirraðir.

Þegar Trudeau sagði Trump að það væri fjarstæðukennt að skilgreina verndartolla á kanadískar vörur sem þjóðaröryggismál svaraði Trump með því að spyrja hvort Kanadamenn hefðu ekki gerst sekir um að brenna Hvíta húsið til grunna á sínum tíma.

Trudeau vissi víst ekki alveg hvað hann átti að segja. Sennilega var Trump að vísa til stríðsins sem kennt er við 1812 þegar breskt herlið brenndi vissulega Hvíta húsið. Kanada var hins vegar ekki til á þeim tíma, ríkið var stofnað 1867.

Eina leiðin til að gera gott úr þessari söguskoðun er að vísa til þess árásin á Washington, sem endaði með eldhafi í Hvíta húsinu og víðar í Washington, var gerð í hefndum fyrir árás Bandaríkjamanna á bæinn York í bresku nýlendunni Ontario. Ontario varð síðar hluti af Kanada.


Tengdar fréttir

Trump vill ekki hitta leiðtoga G7 ríkja

Hann segir það sóun á tíma sínum í aðdraganda fundar hans og Kim Jong-un, þann 12. júní, og hann vill ekki láta þau lesa yfir sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×