Innlent

Segir dóm Hæstaréttar óskiljanlegan og gríðarleg vonbrigði

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Adolf Ingi Erlingsson er eins og gefur að skilja ósáttur við nýfallinn dóm Hæstaréttar.
Adolf Ingi Erlingsson er eins og gefur að skilja ósáttur við nýfallinn dóm Hæstaréttar. Vísir/Ernir

„Þetta eru gríðarleg vonbrigði og að mínu mati óskiljanlegur dómur,“ segir Adolf Ingi Erlingsson um dóm Hæstaréttar sem féll í dag.

Með dómnum var Ríkisútvarpið sýknað af kröfum Adolfs Inga sem höfðaði mál gegn stofnuninni þar sem hann taldi sig hafa fyrir orðið einelti á vinnustaðnum auk þess sem hann taldi að ólöglega hefði verið staðið að uppsögn hans árið 2013.

Hæstiréttur sneri við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í júlí í fyrra þar sem RÚV var dæmt til að greiða Adolfi Inga 2,2 milljónir króna í bætur, það er 500 þúsund krónur í skaðabætur vegna eineltis, 500 þúsund krónur vegna ólögmætrar uppsagnar og 1,2 milljónir króna vegna þess fjártjóns sem Adolf varð fyrir vegna starfsmissisins.

Adolf Ingi segir að honum hafi fundist dómur héraðsdóm vel ígrundaður og vandaður.

„En mér sýnist eftir þennan dóm Hæstaréttar að það sé vita gagnslaust fyrir fólk að kvarta undan einelti á vinnustöðum því að Hæstiréttur virðist úrskurða það að fyrirtæki þurfi ekki að fara að lögum og reglum sem eru í gildi í sambandi við einelti á vinnustöðum. Héraðsdómari fann það mikið að meðferð RÚV þegar ég kvartaði undan einelti árið 2010 að hann dæmdi þá meðferð sem einelti,“ segir Adolf Ingi og heldur áfram:  

„Hæstiréttur er kominn í hrópandi mótsögn við sjálfan sig því hann dæmdi á sínum tíma Veðurstofuna fyrir aðgerðaleysi í svona máli en samt gerði Veðurstofan margfalt meira í því máli heldur en RÚV gerði í mínu máli. Hæstiréttur dæmdi Veðurstofuna fyrir aðgerðaleysi en telur núna að Ríkisútvarpið hafi ekki þurft að fara í neinu eftir lögum og reglum sem gilda um einelti á vinnustöðum. Mér finnst þetta bara sorglegur dómur og sérstaklega í því umhverfsi sem við búum í í dag og umræðunni sem hefur verið undanfarin misseri í sambandi við ofbeldi og einelti á vinnustöðum þá er þessi dómur sorglegt innlegg og skilaboð frá Hæstarétti.“

Dóm Hæstaréttar má sjá í heild sinni hér.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.