Erlent

Eiginmaður Kate Spade segir frá baráttu hennar við þunglyndi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hjónin Andy Spade og Kate Spade.
Hjónin Andy Spade og Kate Spade. vísir/getty
Andy Spade, eiginmaður heimsfræga hönnuðarins Kate Spade, sem fannst látin á heimili sínu í New York í vikunni sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem hann greinir frá áralangri baráttu konu sinnar við kvíða og þunglyndi.

Spade framdi sjálfsvíg á þriðjudag, 55 ára að aldri. Hún stofnaði tískuvörumerkið Kate Spade New York árið 1993 ásamt manni sínum og hannaði handtöskur sem urðu fjótt afar vinsælar í New York.

Eiginmaður hennar segir að hann og dóttir þeirra séu harmi slegin vegna fráfalls Spade og að þau botni ekkert í lífinu án hennar.

„Kate barðist við þunglyndi og kvíða í mörg ár. Hún var að leita sér hjálpar og vann náið með læknum sínum til að fá lækningu við þessum sjúkdómi sem tekur alltof mörg líf. Við töluðum við hana kvöldið áður og hún hljómaði hamingjusöm. Það var ekkert sem benti til þess að hún myndi gera þetta, engin aðvörun. Þetta er algjört sjokk. Þetta var augljóslega ekki hún heldur var hún að berjast við djöfla,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar kemur jafnframt fram að þrátt fyrir að hjónin hafi ekki búið saman síðustu tíu mánuði þá hafi þau hist eða talað saman á hverjum degi.

„Dóttir okkar var í algjörum forgangi hjá okkur báðum. Við vorum ekki skilin og ræddum aldrei skilnað. Við vorum bestu vinir og vorum að reyna að takast á við vandamál okkar á þann hátt sem við töldum bestan. Við vorum saman í 35 ár. Við elskuðum hvort annað mjög mikið og þurftum einfaldlega að taka pásu. Þetta er sannleikurinn. Allt annað sem gengur þarna úti núna er rangt,“ segir í yfirlýsingu eiginmanns Spade.

Þá leggur hann áherslu á að hún hafi ekki verið að misnota eiturlyf eða áfengi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×