Innlent

200 tóku þátt í maraþonboðhlaupi til styrktar Atla og fjölskyldu

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Atli Örn Snorrason greindist með heilaæxli í lok árs 2017. Hann og Hrafnhildur kona hans áttu tvö ung börn og það þriðja á leiðinni þegar fótunum var skyndilega kippt undan þeim
Atli Örn Snorrason greindist með heilaæxli í lok árs 2017. Hann og Hrafnhildur kona hans áttu tvö ung börn og það þriðja á leiðinni þegar fótunum var skyndilega kippt undan þeim Mynd/Riddarar Rósu
„Við erum algerlega orðlaus yfir öllum sem mættu og styrktu Atla og fjölskyldu,“ segja skipuleggjendur maraþonboðhlaupsins sem fór fram á miðvikudag á Ísafirði. Um 200 manns mættu í þetta góðgerðarhlaup þar sem þátttakendur ýmist gengu eða hlupu. Í ár var safnað fyrir Atla Erni Snorrasyni og fjölskyldu hans en það er hlaupahópurinn Riddarar Rósu á Ísafirði sem skipulagði viðburðinn. 

„Atli Örn Snorrason greindist með heilaæxli í lok árs 2017. Hann og Hrafnhildur kona hans áttu tvö ung börn og það þriðja á leiðinni þegar fótunum var skyndilega kippt undan þeim og Atli greinist með alvarlegt heilaæxli. Atli hefur gengist undir margar og erfiðar meðferðir sem reynt hefur mikið á hann og fjölskylduna, líkamlega, andlega og fjárhagslega. Atli hefur verið óvinnufær frá greiningu og Hrafnhildur heima með ung börn,“ skrifuðu skipuleggjendur um söfnunina.  

Hlaupinn var þriggja kílómetra hringur og gátu verið einn til sjö þátttakendur í hverju liði. Heildarvegalengdin sem þurfti að ganga eða hlaupa er 21 kílómetri. Veðrið á Ísafirði var yndislegt þennan dag og var frábær stemning í hópnum.

„Viðburðurinn gekk mjög vel og hefur aldrei safnast jafn mikið,“ segir Hólmfríður Vala Svavarsdóttir ein af skipuleggjendunum í samtali við Vísi.

„Ég vil bara undirstrika þakklæti, velvilja og vinahug.“

Einnig hafa fjölmargir lagt inn á reikning Riddara Rósu og verður opið áfram fyrir styrki fyrir fjölskylduna til mánudagsins 11. Júní næstkomandi. Reikningsnúmerið er 556-14-602621 og kennitalan 500605-1700. Hér að neðan má sjá nokkrar myndir sem Hólmfríður Vala tók í hlaupinu. 

Myndir/Hólmfríður Vala



Fleiri fréttir

Sjá meira


×