Erlent

Jean-Pierre Bemba sýknaður af stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyninu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Jean-Pierre Bemba er fyrrum varafroseti Lýðveldisins Kongó.
Jean-Pierre Bemba er fyrrum varafroseti Lýðveldisins Kongó. Vísir/Getty
Áfrýjunarstig Alþjóðaglæpadómstólsins sneri í dag við dómi dómstólsins frá árinu 2016 yfir fyrrum varaforseta Lýðveldisins Kongó, Jean-Pierre Bemba. Bemba hafði áður verið fundinn sekur um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu í nágrannaríki sínu, Mið-Afríkulýðveldinu, á árunum 2002-2003.

Dómstóllinn komst upphaflega að þeirri niðurstöðu að Bemba hefði ekki tekist að koma í veg fyrir að uppreisnarmenn á hans vegum dræpu og nauðguðu saklausum borgurum og var Bemba dæmdur til 18 ára fangelsisvistar.

Nú hefur áfrýjunarstig dómstólsins hins vegar snúið ákvörðuninni við, eftir að belgíski dómarinn Christine Van den Wyngaert benti á að við meðferð málsins árið 2016 hefði dómstóllinn hunsað sönnunargögn þess efnis að Bemba hefði gert tilraunir til þess að stöðva glæpina þegar hann fékk veður af þeim.

Máli sínu til stuðnings bentu dómararnir á að Bemba hefði ekki getað borið ábyrgð á gjörðum uppreisnarhermanna sinna, og var hann því sýknaður af ákæru á hendur honum um stríðsglæpi og glæpi gegni mannkyninu.

Ákvörðunin er afar umdeild, en á sama tíma og heyra mátti gleðióp stuðningsmanna Bemba þegar dómur var kveðinn upp, hafa mannréttindasamtökin Amnesty International lýst yfir vonbrigðum sínum með dóminn og sögðu hann „mikið áfall fyrir fórnarlömb hræðilegrar herferðar nauðgana og kynferðisofbeldis.“

Bemba, sem setið hefur í fangelsi síðan 2010, þarf þó að bíða eftir frelsinu eitthvað lengur, en áfrýjunardómstóllinn sneri ekki við dómi yfir honum fyrir að hafa mútað vitnum í upphaflegri meðferð máls hans. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×