Fótbolti

Fanndís Friðriks um þrennu frá Messi gegn Íslandi: Það væri ekki verra

Einar Sigurvinsson skrifar
Fanndís Friðriksdóttir verður í eldlínunni gegn Slóveníu á mánudaginn.
Fanndís Friðriksdóttir verður í eldlínunni gegn Slóveníu á mánudaginn. Fréttablaðið/eyþór
„Því miður, held ég að við töpum á móti Argentínu og það skorar enginn. Því miður. Ég held að leikurinn fari svona 3-0 fyrir Argentínu,“ sagði Fanndís Friðriksdóttir, landsliðskona íslenska kvennalandsliðsins í þættinum Áfram Ísland sem sýndur var á RÚV í gærkvöldi.

Athygli vakti að þegar Kristjana Arnarsdóttir hjá RÚV spurði hvort Lionel Messi væri að fara að skora öll þrjú mörk Argentínumanna fannst Fanndísi það ekki hljóma illa.

„Það væri ekki verra,“ sagði Fanndís en bætti fljótt við, „svona fyrir hann.“

Þær Glódís Perla Viggósdóttir og Sif Atladóttir voru bjartsýnni en Fanndís. Glódís spáir 1-1 jafntefli og Sif telur að íslenska liðið vinni 1-0 sigur.

„Áfram þið,“ sagði Fanndís til leikmanna íslenska landsliðsins að lokum. Hún mun því styðja íslenska liðið á Heimsmeistaramótinu, þrátt fyrir að hugsa til Messi sem hefði eflaust gaman af því að skora þrennu gegn Íslandi í fyrsta leik liðanna á mótinu. Liðin mætast á Spartak vellinum í Moskvu næsta laugardag.

Næsta íslenska landsliðverkefni er hins vegar leikur kvennalandsliðið gegn Slóveníu í undankeppni HM á mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×