Lífið

Beggi blindi reyndist ekki einn ríkasti maður landsins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bergvin Oddsson, fyrrverandi formaður Blindrafélagsins og aðili í í ferðaþjónustu.
Bergvin Oddsson, fyrrverandi formaður Blindrafélagsins og aðili í í ferðaþjónustu. vísir/stefán
„Nei, það er ekki ég,“ segir Bergvin Oddsson, betur þekktur sem Beggi blindi, í ljósi nýs lista fjörutíu hæstu skattgreiðenda landsins. Á listanum kennir ýmissa grasa. Forstjórar lyfjafyrirtækja, fyrrverandi ráðherra, alþingismaður og eigendur HB Granda svo eitthvað sé nefnt.

Í 35. sæti er Bergvin Oddsson.

„Ég segi nú alltaf að ég sé djöfulli ríkur af því að ég sé ekki neitt sem mig langar í,“ segir Beggi og skellir upp úr í samtali við blaðamann. Hann var í óðaönn við að lóðsa grunnskólabörn úr Keflavík um Heimaey en Beggi starfar í ferðaþjónustu.

„Þó menn reki ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum þá er ansi langt í að maður komist á svona lista,“ segir Beggi. Hann á þó ekki í miklum erfiðleikum með að útskýra í hverju misskilningurinn er fólginn.

„Bergvin Oddsson er ömmubróðir minn,“ segir Beggi. Útgerðarmaður á Glófaxa sem seldi skipið til Vinnslustöðvarinnar í fyrra. Í 33. sæti er sonur hans, alþingismaðurinn fyrrverandi Lúðvík Bergvinsson.

Feðgarnir greiddu um 90 milljónir í skatt á liðnu ári. Listann yfir topp fjörutíu má sjá hér.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×