Innlent

Bátsverjarnir héngu utan á sökkvandi bátnum

Kjartan Kjartansson skrifar
Stefni trillunar sé stóð upp úr sjónum þegar björgunarsveitarmenn sáu síðast til hennar.
Stefni trillunar sé stóð upp úr sjónum þegar björgunarsveitarmenn sáu síðast til hennar. Landsbjörg
Sjómennirnir tveir sem bjargað var í Skagafirði í kvöld héngu utan á stefni trillu sinnar þegar björgunarsveitarmenn komu að þeim. Þeim hafði tekist að koma sér í björgunargalla og amaði því ekkert að þeim þrátt fyrir að sjór hafi gengið yfir þá.

Ingimundur Ingvarsson í svæðisstjórn björgunarsveita á svæðinu segir að ólag eða brot hafi komið á bátinn sem hafi valdið því að hann lagðist á hliðina. Mennirnir tveir sem voru um borð hafi náð að gera Landhelgisgæslunni viðvart og svo komið sér í björgunargalla.

Báturinn hafi hins vegar fljótt farið nær alveg á kaf. Mennirnir náðu að hanga á stefni trillunar þar til björgunarsveitarmenn á bátum frá Sauðárkróki og Hofsósi komu á vettvang nærri Reykjadiskum í Skagafirði. Þyrla Landhelgisgæslunnar var einnig kölluð út vegna óhappsins.

Ekkert amaði að mönnunum sem voru alveg þurrir þegar þeim var komið í björgunarbátinn, að sögn Ingimundar. Þeir var komið til hafnar að Reykjum og þeim síðan ekið til Sauðárkróks.

„Úr því sem komið var fór þetta bara mjög vel,“ segir Ingimundur við Vísi.

Nokkur strekkingur og öldugangur var á svæðinu þegar óhappið varð. Ingimundur segir þó að eitthvað annað hafi gerst sem hafi komið bátsverjum í vanda. Trillan hafi vel átt að ráða við veðuraðstæður.

Síðast þegar björgunarsveitarmenn sáu til trillunar stóð ennþá örlítið af stefninu upp úr sjónum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×