Innlent

Tveggja bíla árekstur á Suðurlandsvegi

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Þyrlan var kölluð út vegna umferðaslyss á Suðurlandi en beiðnin var afturkölluð.
Þyrlan var kölluð út vegna umferðaslyss á Suðurlandi en beiðnin var afturkölluð. Vísir/Eyþór
Tveggja bifreiða árekstur varð á Suðurlandsvegi við Steina um klukkan sex í dag. Sex einstaklingar voru í þessum tveimur bifreiðum og var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út. Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar staðfesti í samtali við Vísi að þyrlan væri lögð af stað en útkallið var svo afturkallað.  

„Það er búið að afturkalla þyrluna, það kom í ljós að ekki var þörf,“ segir Frímann Baldursson hjá lögreglunni á Selfossi í samtali við Vísi. Hann segir að aðilarnir í bílunum tveimur séu ekki taldir alvarlega slasaðir, en lögregla er enn á vettvangi. Allir farþegarnir voru þó komnir út úr bílunum.

„Bílarnir enduðu fyrir utan veg þannig að það eru ekki umferðartafir.“

Lögregla gat ekki gefið frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×