Viðskipti innlent

Samkeppniseftirlitið samþykkti kaup Pennans á verslununum The Viking

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Siggi í Víking ætlar að snúa sér að öðru en hann hefur selt Pennanum verslunarkeðju sína.
Siggi í Víking ætlar að snúa sér að öðru en hann hefur selt Pennanum verslunarkeðju sína. visir/stefán
Samkeppniseftirlitið hefur haft til umfjöllunar samruna Pennans ehf. og H-Fasteigna ehf. Samruninn felur í sér að Penninn kaupir allan rekstur H-Fasteigna sem áður var rekinn af Hórasi ehf. Nánar tiltekið er um að ræða þann rekstur sem starfræktur er í verslunum sem reknar eru undir vörumerkinu The Viking. Samkeppniseftirlitið hefur nú ákveðið að ekki séu forsendur til að aðhafast vegna samrunans.

„Penninn rekur 16 verslanir um land allt undir nafninu Penninn Eymundsson. Jafnframt rekur Penninn tvær ferðamannaverslanir undir merkjum Islandia. Starfsemi Pennans felst aðallega í sölu á bókum og tímaritum, húsgögnum, gjafavörum, föndurvörum, ritföngum, ásamt því að bjóða upp á heildarlausnir fyrir rekstur. H-Fasteignir er í grunninn fasteignafélag, en tók við rekstri verslana sem eru reknar undir merkjum The Viking í byrjun árs 2018. H-Fasteignir rekur því í dag fjórar verslanir með minjagripi og handverk ætlað erlendum ferðamönnum,“segir í ákvörðun Samkeppniseftirlistins.

Að undangenginni rannsókn og með hliðsjón af gögnum málsins var það mat Samkeppniseftirlitsins að samruninn hindri ekki virka samkeppni og leiði ekki til mydunar markaðsráðandi stöðu.

„Þá leiðir hann ekki til þess að samkeppni á markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti. Því eru ekki forsendur til að aðhafast vegna samrunans á grundvelli 17. gr. c. samkeppnislaga nr. 44/2005.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×