Veiði

Rammskökk Sunray Shadow eða skoska aðferðin

Karl Lúðvíksson skrifar
Sunray Shadow
Sunray Shadow

Sunray Shadow þekkja líklega allir veiðimenn enda er þessi fluga orðin ein af þeim vinsælli í laxveiðiám landsins.

Fyrsta útgáfan af þessari flugu sem lenti í höndunum á mér var hnýtt á plasttúbu og með svartan væng.  Mun einfaldari hnýting en margar af þeim fjölmörgu útgáfum sem eru til af þessari flugu í dag.  Ekki fannst mér mikið til hennar koma þegar ég hnýtti hana undir en sá sem gaf mér hana sagði þessa flugu vera ansi veiðna.  Ég setti hana fyrst undir í Breiðdalsá í lok júlí 2006 og þar setti í ég í fyrsta laxinn minn á hana.  Svo happadrjúg var hún þessum túr að ég setti í 13 laxa og landaði 11 á þessa flugu sem nú hefur öðlast fastann sess í mínu lífu.  Ég á meira að segja þessa flugu ennþá í boxinu frá góðu dögunum í Breiðdalsá en hún er þar bara til minninga en ekki til notkunar.

Þegar ég svo held suma daga að ég viti margt og hafi prófað mikið í veiði kemur upp tilfelli sem sannar að það loforð sem ég gaf sjálfum mér fyrir margt löngu að byrja hvert sumar með þeirri hugsun að ég kunni ekkert.  Ástæðan fyrir þessari hugsun er sú að sá sem allt kann og allt veit getur með engu móti orðið betri og þar sem ég er alltaf að leitast eftir meiri þekkingu og reynslu í minni veiði hefur þetta hugarástand um meinta vankunnáttu oft reynst mér vel.

Tilfellið sem ég nefni er þegar ágætur breskur veiðimaður sem ég var að gæda í Langá á besta tíma í júlí hnýtti undir Sunray Shadow að minni beiðni í Túnstreng og setti þar í tvo laxa og landaði báðum og sleppti.  Í Bakkstreng var mikið af fiski en ekki var áhuginn þeirra mikill á Sunray svo sá breski snaraði flugunni inn og sagðist ætla að gera hana skoska.  Mér datt í hug að hann vildi marinera hana upp úr ágætis (ekki meira en það) skosku viskíi sem hann var með í töskunni en það var þó ekki raunin.  Hann náði sér í kveikjara, færði vænginn frá búknum á flugunni, hitaði upp miðbúkinn og beygði hann í ca 70 gráður þegar hann var orðinn mjúkur.  Hún var þá orðin rammskökk!  Eins og hann sagði "svona jafn skökk og skoskur herramaður þegar hann klárar eina svona flösku".  

Við það hennti hann flugunni aftur á breiðuna og við manninn mælt í fyrsta kasti setur hann í lax sem dettur af þegar hann reysir stöngina.  En það breytti bara engu því flugan var ennþá í ánni og hann var varla búinn að leggja hana niður þegar annar tók.  Hann setti í 9 laxa á einum tíma og af þeim landaði hann fjórum.  Nota bene þetta var fullorðinn maður sem var ekki sá fljótasti í förum.  Þessi skoska Sunray hafði greinilega sannað sig og ég hef oft notað hana svona síðan með góðum árangri.  Það sem hreyfir greinilega við laxinum þegar hún fer um hylinn er að með því að vera svona boginn er mun meira líf í henni og hún er meira eins og lítill svartur toby í hylnum og laxarnir voru frekar ólmir í að stökkva á hana.  Þannig að ef þú átt eina svona mæli ég með því að prófa hana.  Með eða án viskí í kverkarnar á undan eða eftir er valkvætt en minn veiðimaður fékk sér bara góðann sopa eftir hverja löndun.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.