Innlent

Sveitarfélaginu Hornafirði stefnt til að viðurkenna bótaskyldu og tjón metið á hundruð milljóna

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar

Fyrirtæki við Jökulsárlón fer fram á að sveitarfélagið Hornafjörður viðurkenni bótaskyldu vegna ólögmætra aðgerða á átta ára tímabili. Tjón fyrirtækisins hefur verið metiðá hundruð milljóna króna.

Fyrirtækið Ice Lagoon ehf. stefnir sveitarfélaginu Hornafirði og byggir stefnuna á því að sveitarfélagið hafi frá árinu 2010 viðhaft ýmsar aðgerðir sem hafi valdið félaginu fjárhagslegu tjóni.

Sakar sveitarfélagið um valdníðslu

Jón Þór Ólason lögmaður Ice Lagoon segir að  sveitarfélagið hafi ekki gætt jafnræðis við úrlausn mála og komið fram af valdníðslu og hlutdrægni í ákveðnum tilfellum. 

„Málatilbúnaðurinn byggir á því að sveitarfélagið hafi í tæp átta ár viðhaldið ólögmætu ástandi við Jökulsárlón með því að synja umbjóðanda mínum með ólögmætum hætti um að geta sinnt rekstri sínum,“ segir Jón Þór.  

Jón segir að tveir dómar hafi fallið, þar sem sýnt þykir að aðgerðir sveitarfélagsins hafi verið ólögmætar.  

„Við erum með tvo dóma sem eru mjög skýrir að þessu leiti. Enda tel ég að bótaskylda sveitarfélagsins sé alveg skýr. Ég tel að framganga sveitarfélagsins sé líkt og raunhæft verkefni í stjórnsýslurétti, hún er svo röng, “ segir Jón Þór.  

Í stefnunni kemur fram að samkvæmt niðurstöðu endurskoðendafyrirtækisins Ernst & Young nemi tjón Ice Lagoon ehf. vegna aðgerða sveitarfélagsins allt að rúmum 270 milljónum króna. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Austurlands þann 7. júní.

Bæjarstjóri segir óeðlilegt að umfjöllun sé komin í fjölmiðla

Fréttastofa hafði samband við Björn Inga Jónsson bæjarstjóra Hornafjarðar vegna málsins sem sagðist ekki hafa fengið stefnuna og þætti óeðlilegt að málið væri komið í fjölmiðla áður en hún bærist til sín.     



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×