Erlent

Palestínumenn kæra Ísrael til Alþjóðaglæpadómstólsins í Haag

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Yfirvöld í Palestínu hafa kært Ísraelsríki til Alþjóðaglæpadómstólsins í Haag fyrir meinta stríðsglæpi Ísraela í Palestínu. Ísraelar vísa ásökunum um stríðsglæpi aftur á móti á bug.

Utanríkisráðherra Palestínu fór fram á formlega rannsókn við Alþjóðaglæpadómstólinn í Haag í gær. Hann vill að saksóknari rannsaki meinta glæpi og mannréttindabrot Ísraelshers gegn Palestínumönnum allt aftur til ársins 2014 - þar á meðal dauðsföll fjölda Palestínumanna sem fallið hafa í mótmælum við Gaza-ströndina undanfarnar vikur.

„Palestínuríki tók mikilvægt og sögulegt skref í átt að réttlæti fyrir Palestínumenn sem halda áfram að þjást vegna viðvarandi, víðtækra og kerfisbundinna glæpa,“ segir Riyad al-Maliki, utanríkisráðherra Palestínu.

Með rannsókninni vilja Palestínumenn láta reyna á raunverulegt vægi alþjóðalaga og hvort þau þjóni þeim tilgangi sem þeim sé ætlað. Ísrael er ekki meðal þeirra 123 ríkja sem aðild eiga að glæpadómstólnum en það er Palestína aftur á móti. Þannig gæti dómstóllinn aðeins rannsakað þá meintu glæpi sem framdir hafa verið í landi Palestínu að því er Reuters greinir frá.

„Frekari tafir á réttlæti fyrir palestínsk fórnarlömb jafngildir því að þeim sé neitað um réttlæti og það er óásættanlegt. Við líðum það ekki að óréttlætið verði örlög Palestínu,“ segir Maliki.

Ísraelar segja rannsókn af þessum toga ekki standast lög og telja dómstóllin fara út fyrir valdsvið sitt. Þá vísa þeir ásökunum um stríðsglæpi og mannréttindabrot alfarið á bug og segja aðgerðir hersins á Gaza að undanförnu hafa verið réttmætar.


Tengdar fréttir

Rannsakað af stríðsglæpadómstólnum

Um tólf þúsund hafa særst í mótmælum á Gazaströndinni frá marslokum. Öryggisráðið fundaði í gær vegna mannfallsins á sunnudag. Aðalsaksóknari stríðsglæpadómstólsins fylgist náið með málum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×