Sport

Bardagamenn og crossfittarar setja upp sundhettur fyrir góðgerðarleik

Pétur Marinó Jónsson skrifar
Laugardaginn 26. maí fer fram góðgerðarleikur í sundknattleik (e. Water Polo) á milli Mjölnis og Granda 101 (Crossfit box). Bæði félögin senda frá sér úrvals keppendur úr MMA, brasilísku jiu-jitsu, Crossfit og öðrum þrekmótum.

Aðgangseyrir á leikinn er 1000 kr. en öll innkoma rennur beint til Reykjadals en þar rekur Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra sumar- og helgardvalarstað fyrir fötluð börn og ungmenni.

Góðgerðarleikurinn er hluti af alþjóðlegu sundknattleiksmóti í Laugardalslauginni. Mótið hefst fimmtudaginn 24. maí og lýkur með úrslitaleik á laugardeginum. Átta lið taka þátt í mótinu og þar af eru sex erlend lið sem koma sérstaklega hingað til lands til að keppa á mótinu. Á mótinu verða samtals 70 keppedur frá 40 mismunandi löndum.

Liðsmenn Mjölnis og Granda 101 hafa enga reynslu af sundknattleik en hafa litið við á nokkrar æfingar í undirbúningi fyrir góðgerðarleikinn. Liðsmenn beggja liða eru sammála um að þetta sé gríðarlega erfið íþrótt og ætti leikurinn að vera góð skemmtun fyrir áhorfendur.

Sundknattleikur hefur verið stundaður hér á landi um langt skeið en þetta var fyrsta liðsíþróttin sem Ísland keppti í á Ólympíuleikunum (árið 1936). Íþróttin hefur verið sögð ein erfiðasta íþrótt heims og fer vöxtur hennar hér á landi vaxandi.

Eins og áður segir er aðgangseyrir 1000 kr. en frjáls framlög eru velkomin. Þeir sem ekki geta komist á leikinn en vilja samt láta gott af sér leiða geta lagt inn á neðangreindan reikning Reykjadals:

Kennitala: 630269-0249

Reikningsnúmer: 0313-26-006302

Dagskrá mótsins:

Fimmtudagurinn 24. maí

17:00-21:30 Undankeppni

Föstudagurinn 25. maí

19:00 – 20:00 Ármann vs. S.H. (Íslandsmeistaratitill í húfi)

20:00 – 21:30 Undankeppni

Laugardagur 26. maí

11:00 – 13:00 Undanúrslit

17:30 – 18:00 Leikur um 3. sæti

18:15 GÓÐGERÐARLEIKUR MJÖLNIR VS. GRANDI 101

19:00 Úrslitaleikur mótsins




Fleiri fréttir

Sjá meira


×