Fótbolti

Raggi Sig: Það elska allir Íslendinga í Rússlandi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ragnar Sigurðsson.
Ragnar Sigurðsson. Vísir
Það var létt yfir varnarmanninum skemmtilega, Ragnari Sigurðssyni, fyrir æfingu landsliðsins á Laugardalsvelli í dag.

„Tilfinning er mjög góð. Gaman að hitta strákana og sérstaklega þegar veðrið er svona. Þá er alltaf léttara yfir öllu,“ sagði Ragnar í sólinni og bætir við að HM-fiðringurinn fari stigvaxandi hjá sér.

Ragnar spilar með Rostov í Rússlandi en lokaleikur Íslands í riðlakeppni HM gegn Króatíu fer fram á heimavelli Rostov.

„Það verður gott fyrir okkur sem spilum með félaginu. Nánast eins og að spila á heimavelli,“ segir Ragnar en hefur hann ekkert verið að vinna í því að fá Rússana á vellinum til þess að styðja Ísland í leiknum?

„Það þarf ekkert að vinna í því. Allir Rússarnir halda með okkur fyrir utan sína menn. Þeir Rússar sem mæta á íslensku leikina eru pottþétt að fara að halda með okkur. Það segja það allir og það elska allir Íslendinga í Rússlandi. Það verður gott að fá aukastuðning.“

Það er óljóst í dag hvar Ragnar spilar næsta vetur en það getur vel farið svo að hann verði áfram hjá Rostov.

„Ég hef talað við þá en mér liggur ekkert á að klára þetta. Það er ekki ljóst hvort ég klári mín mál fyrir eða eftir HM. Ég er að vega og meta stöðuna. Það er ekki kominn þykkur bunki af tilboðum en það eru komin nokkur tilboð. Ég hugsa að það bætist í þetta er nær dregur lokum á glugganum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×