Handbolti

Löwen tapaði mikilvægum stigum í toppbaráttunni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Guðjón skoraði sjö mörk í kvöld.
Guðjón skoraði sjö mörk í kvöld. vísir/getty
Rhein-Neckar Löwen tapaði mjög mikilvægum stigum í toppbaráttu þýsku úrvalsdeildarinnar er liðið tapaði með einu marki, 24-23, gegn Melsungen á heimavelli í kvöld.

Löwen leiddi leikinn lengst af. Þeir voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15-13, eftir að hafa náð mest fjögurra marka forystu í fyrri hálfleik.

Hægt og rólega minnkuðu Melsungen muninn og breyttu stöðunni úr 21-18 í 21-21. Guðjón Valur Sigurðsson jafnaði svo metin fyrir Löwen í 23-23 tveimur mínútum fyrir leikslok en Lasse Mikelsen skoraði sigurmarkið rúmri mínútu fyrir leikslok.

Grátlegt tap en Löwen er nú stigi á eftir Flensburg sem er á toppnum. Melsungen er í sjöunda sæti deildarinnar. Guðjón Valur skoraði sjö mörk fyrir Löwen en Alexander Petersson skoraði fjögur. 

Füchse Berlin komst upp að hlið Löwen í öðru til þriðja sæti deildarinnar eftir sex marka sigur á Tus N-Lübbecke á heimavelli, 26-20. Bjarki Már Elísson skoraði þrjú mörk.

Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar hans í Erlangen eru komnir upp í tólfta sæti deildarinnar eftir tveggja marka sigur, 31-29, á heimavelli í kvöld.

Tvær umferðir eru eftir af deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×