Fótbolti

Alfreð: Þarf að skoða hvað ég get gert betur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alfreð Finnbogason ætlaði að spila 30 leiki á síðustu leiktíð.
Alfreð Finnbogason ætlaði að spila 30 leiki á síðustu leiktíð. vísir/vilhelm
Alfreð Finnbogason, framherji Augsburg í þýsku 1. deildinni, er mættur til æfinga með íslenska landsliðinu sem hefur formlegan undirbúning fyrir HM 2018 í Rússlandi í næstu viku þegar að allur hópurinn verður kominn saman.

Alfreð fór hamförum fyrir Augsburg fyrir áramót og skoraði ellefu mörk í 17 leikjum, þar af tvær þrennur. Hann meiddist svo á kálfa eftir áramót og missti af ellefu af 17 leikjum liðsins á seinni hluta leiktíðar.

„Fyrri hlutinn var frábær þar sem að ég spilaði alla leikina og bæði gekk mjög vel hjá liðinu og mér persónulega. Ég næ svo ekki að spila nema sex leiki í seinni hlutanum en þó var mikilvægt fyrir mig að ná þessum síðustu fjórum leikjum til að geta komið í leikæfingu hingað og inn á HM. Það var markmið mitt í þessum meiðslum,“ segir Alfreð.

Með Alfreð í stuði gekk Augsburg-liðinu vel fyrir áramót en án hans fór að dala í seinni hlutanum og lenti liðið í smá fallbaráttu sem reddaðist þegar að Alfreð kom aftur úr meiðslunum.

„Við náðum ekki að fylgja eftir góðum árangri í seinni hlutanum og þegar maður sjálfur er meiddur er erfitt að hjálpa liðinu. Það var svekkjandi að geta ekki klárað heilt tímabil sem var mitt markmið,“ segir Alfreð.

„Aðaltakmarkið mitt fyrir síðustu leiktíð var að spila 30 leiki. Það var leiðinlegt að ná því ekki. Ég þarf bara að skoða hvað ég get gert betur og hvað ég get bætt við mig til að ná heilu góðu tímabili á næstu leiktíð.“

Markahrókurinn viðurkennir að hann dreymir um stærri hluti en Augsburg en hann hefur auðvitað spilað fyrir stórlið á borð við Real Sociedad og Olympiacos.

„Ég er alveg hreinskilinn með það, að ég mun skoða mig um ef eitthvað gott býðst. Ég veit hvað ég hef í Augsburg og hef bæði góða og slæma reynslu af því að fara á aðra og stærri staði. Ég mun bara sjá hvað dettur inn í sumar og hvort það verði eitthvað skemmtilegt í boði. Ef ekkert kemur þá held ég áfram glaður og sáttur hjá Augsburg,“ segir Alfreð Finnbogason.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×